144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[22:18]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hafði nú tekið eftir þeim þingmönnum Framsóknarflokksins sem nefndir eru síðar í fréttinni og höfðu lýst andstöðu við matarskattinn, sérstaklega formanni fjárlaganefndar því að það vekur auðvitað athygli manns.

Mér var líka kunnugt um efasemdir hv. þm. Haraldar Einarssonar um þessar fyrirætlanir, ekki þetta um hækkun matarskattsins heldur um hitt að fella niður sykurskattinn því að hv. þingmaður, sem er auðvitað líka kunnur íþróttamaður, hefur talað mjög fyrir mikilvægi lýðheilsusjónarmiða í skattlagningu á óhollustu í landinu og lýst efasemdum um þessi áform út frá því sjónarmiði.

Mér var hins vegar ekki kunnugt um þessar yfirlýsingar Höskuldar Þórs Þórhallssonar og finnst gott að heyra hversu skýrt og eindregið hann tekur á málinu. Það er auðvitað nauðsynlegt að tala algerlega skýrt í grundvallarmáli eins og þessu en hitt getur ekki verið rétt haft eftir aðstoðarmanni forsætisráðherra, Ásmundi Einari Daðasyni, að þingflokkur Framsóknarflokksins í heild sinni hafi fyrirvara á málinu, því að málið er einfaldlega flutt af fjórum ráðherrum flokksins og það er algerlega óhugsandi að þeir hafi haft einhvern allsherjarfyrirvara við þennan þátt málsins. Þá hygg ég að hæstv. fjármálaráðherra hefði ekki mælt fyrir því í þinginu en það er ráð að óska eftir því að hæstv. fjármálaráðherra geri grein fyrir því, af því að hann er við umræðuna hér, hvort ráðherrar Framsóknarflokksins hafi við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins út úr ríkisstjórn gert fyrirvara við það að flytja málið eða hvort það sé bara sá hluti þingflokks Framsóknarflokksins sem ekki situr á ráðherrabekk sem hefur þennan fyrirvara. Annars geta kannski þingmenn Framsóknarflokksins sem eru á mælendaskránni tekið af vafa um þetta atriði.