144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[22:20]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er sannarlega kúnstug staða eins og kemur fram í máli hv. þingmanns. Í raun og veru er staðan fáheyrð. Ég minnist þess ekki að við höfum séð nokkuð viðlíka á síðustu áratugum í íslenskum stjórnmálum, að svona nokkuð hafi gerst.

Það kemur fram hjá Fréttablaðinu að Framsóknarflokkurinn í heild, ég les þingflokkurinn vegna þess að það er það sem verið er að ræða, var með fyrirvara á málinu, segir Ásmundur Einar Daðason. Hann er eins og hér hefur komið fram ekki hver sem er því að hann er sérstakur trúnaðarmaður forsætisráðherra og aðstoðarmaður hans. En eins og þetta er sett fram í blaðinu er ekki hægt að skilja það öðruvísi en að annað tveggja hafi gerst: Þingflokkur Framsóknarflokksins í heild, að frádregnum ráðherrunum, sé með fyrirvara við stjórnarfrumvarpið, fjárlagafrumvarp og tengd frumvörp, annaðhvort hafi það gerst eða þá hitt að — þetta er nú svo snúið að það er varla hægt að koma orðum að því — annaðhvort að þeir hafi lýst andstöðu við ráðherra sína eða þá ráðherrunum hafi hreinlega snúist hugur, og hvort tveggja væri mjög skrýtið.

Þó að þetta sé svona afdráttarlaust og afgerandi á forsíðu Fréttablaðsins hefur enginn hirt um að fylgja þessu eftir og reyna að fá fram hvað gerðist á þeim afdrifaríka þingflokksfundi þegar þessir fyrirvarar voru orðaðir og væntanlega bókaðir í bókum þingflokksins, eða hvernig sem það gerðist. Það er sannarlega óvenjulegt og óvenjulegast af öllu, af því að hv. þingmaður spurði um stjórnarfrumvarp almennt, þetta er ekki almennt stjórnarfrumvarp, þetta er fjárlagafrumvarp, þetta er fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar og það að standa ekki með því þýðir að standa ekki með ríkisstjórninni og það greinilega er almennt afstaða þingflokks Framsóknarflokksins.