144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[22:42]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að spara mér stór orð. En mér virðist sem hér liggi það fyrir að hv. þingmenn Framsóknarflokksins séu enn einu sinni barðir til hlýðni, píndir til að hverfa frá stefnumiðum sínum undir ofurafli Sjálfstæðisflokksins. Hv. þm. Willum Þór Þórsson er fyrsti þingmaður Framsóknarflokksins sem treystir sér í þessa umræðu. Það gerist eftir að fyrir liggur að hæstv. forsætisráðherra sagði á sínum tíma að það væri margsannað að hækkun matarskattsins kæmi langverst niður á þeim tekjulægstu. Ekkert hefur komið fram í umræðunni sem hrindir því. Þvert á móti hafa ýmsir þingmenn Framsóknarflokksins tekið undir þessi ummæli og sagt að ekkert hafi breyst síðan þau orð hrutu af vörum þáverandi og núverandi formanns og hæstv. forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Ýmsir þingmenn hafa stigið fram og haft kjark til að segja að þeir mundu ekki samþykkja frumvarpið. Ég átti orðastað við einn þeirra, hv. þm. Karl Garðarsson, hér í síðustu viku sem sagði reyndar að hann mundi koma til þessarar umræðu til að skýra viðhorf sín betur. Það var Framsóknarflokkurinn sem átti frumkvæði að því, með stuðningi Samfylkingarinnar sem þá var í stjórnarandstöðu, að fella lægra þrepið, matinn, úr 14% niður í 7%. Það var talið eitt af mikilvægustu stefnumálum Framsóknarflokksins. Það hefur verið margítrekað. Ég vísa í ályktun framsóknarmanna í Skagafirði. Hv. þingmaður kemur hingað og hann er í reynd að segja mér að hann ætli fyrir hönd Framsóknarflokksins að svíkja þetta. Hann reyndi að ómerkja orð hæstv. forsætisráðherra og hann er að segja að þeir sjö þingmenn, þar á meðal formaður þingflokks framsóknarmanna, fari með rangt mál þegar þeir segja að Framsóknarflokkurinn hafi gert fyrirvara um þetta mál.