144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[22:50]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það liggur þá fyrir að fyrirvari Framsóknarflokksins var alger, þ.e. þingflokkurinn í heild gerir fyrirvara við þessi stjórnarfrumvörp, sem eru væntanlega fjárlagafrumvarpið og tekjufrumvarpið. Þannig skil ég hv. þingmann og bið hann að leiðrétta mig ef það er ekki rétt skilið.

Ég skil það líka svo að ráðherrar Framsóknarflokksins hafi á þessum stjórnarfundi gert fyrirvara við stjórnarfrumvarp. Þetta er afar mikilvægt atriði og ég bið hv. þingmann að virða mér það til vorkunnar að ég fari ekki í langa efnislega umræðu í þessu andsvari þó að ég hefði sannarlega viljað það. En það er einfaldlega vegna þess að mikil þörf er á því, nú þegar klukkan er að nálgast 11 og við fáum í fyrsta skipti í þessari umræðu tækifæri til að eiga orðastað við þingmann Framsóknarflokksins, að þetta liggi fyrir þannig að við áttum okkur á því um hvað umræðan snýst, þ.e. hver afstaða Framsóknarflokksins er.

Mér þykir þá farið að verða býsna áhugavert, í framhaldi af þessari umræðu hér, að sjá hver afstaða Sjálfstæðisflokksins er til þeirra fyrirvara sem liggja væntanlega fyrir bókaðir. Ég vænti þess að sá trúnaður ríki milli stjórnarflokkanna að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi fengið aðgang að þessum bókaða fyrirvara þingflokks Framsóknarflokksins í þessu lykilmáli ríkisstjórnarinnar. Ég spyr hv. þingmann hvort honum sé kunnugt um þann þátt í samskiptum þingflokkanna.