144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[23:17]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður hefur ekki hlustað mjög á ræðu mína því að þar kom í fyrsta lagi fram að ég væri hlynntur því að leggja niður vörugjöld. Ég mundi bara vilja greiða það með því að halda áfram að heimta skatta af 5.000 ríkustu heimilunum í landinu eða halda áfram að láta útgerðina borga eðlileg veiðigjöld í ríkissjóð. Það er alger óþarfi að fjármagna það þjóðþrifaverk með því að hækka verð á lífsnauðsynjum heimilanna í landinu jafn mikið og raun ber vitni.

Ég greindi líka frá því að við í Samfylkingunni hefðum á kjörtímabilinu 2007–2009 knúið fram afnám gamla vörugjaldakerfisins í matvörum. Það hefur þess vegna verið stefnumál okkar að gera það ef færi væru á í ríkisfjármálum. Hugur okkar er algerlega skýr í þeim efnum. Við teljum hins vegar algerlega fráleitt að fjármagna það með því að hækka húshitun hjá fólkinu í landinu um 5%, með því að hækka rafmagnsreikninginn um 5%, enda var það ekki það sem þingmenn Framsóknarflokksins boðuðu. Eða með því að hækka matvöru um 5%.

Hv. þingmaður getur alveg talað sig hásan um heildaráhrifin. Þetta snýst um nauðsynjar og það breytir ekkert þeirri staðreynd að hér er verið að hækka nauðsynjar heimilanna um 5%, 100 þús. kr. á ári fyrir hvert heimili að nauðsynjalausu. Stjórnarmeirihlutinn getur nefnilega fjármagnað afnám vörugjalda og meira að segja lækkunin á efra þrepinu með öðrum ráðum en þeim að hækka matvörurnar. Hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur orðrétt sagt að það sé löngu sannað að hærri skattar á matvöru komi langverst niður á þeim sem lægst hafa launin. Og ekki mótmælir hv. þingmaður því.