144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[23:27]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á virðisaukaskatti, brottfall almenns vörugjalds og hækkun barnabóta.

Ég vil aðeins koma hingað í lok dagsins til að þakka fyrir mjög málefnalega og gagnlega umræðu hér í dag um þetta frumvarp, umræðu sem er mjög gott veganesti inn í vinnu hv. efnahags- og viðskiptanefndar um þetta mál. Eins og við var að búast voru skoðanir skiptar um frumvarpið og einstaka liði þess. Að mínu mati er frumvarpið gott í heildina, markmið þess sérstaklega sem eru að lækka skatta og bæta kjör allra hópa, einfalda og auka skilvirkni skattkerfisins. Þetta eru markmið sem ég vænti að flestir þingmenn geti tekið undir.

Aðalatriði frumvarpsins fela í sér lækkun efra þrepsins um 1,5 prósentustig sem er þá kjarabót fyrir alla neytendur og til lækkunar á verðlagi. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að lækkunin skili sér til neytenda og ég hef trú á því að ef þeir sem selja vörur vilji sjá frekari lækkanir láti þeir þetta skila sér þó að ýmsir þingmenn hafi viðrað hér efasemdir um að hægt sé að höfða til hagsmuna verslunarinnar. Það er algjörlega þeim sem selja vörurnar í hag að virðisaukaskattur sé lægri og verslun meira á Íslandi en erlendis. Þetta er liður í því sem þeir ættu að fagna og láta þetta skila sér vel.

Hækkun neðra þrepsins úr 7% í 12% er að því leyti jákvæð að þar er dregið úr mun á milli þrepa en síðan er líka stórt skref til einföldunar í því að afnema flókinn lagabálk um almenn vörugjöld og veruleg lækkun út í verðlagið sem fylgir því. Í frumvarpinu er einnig lagt til að hækka barnabætur til að koma til móts við barnmörg heimili sem verða fyrir því að maturinn verður eitthvað dýrari.

Í umræðunni hefur verið kallað eftir meiri upplýsingum. Hvernig skiptast útgjöld á virðisaukaskattsþrep eftir tíundum? Eru fleiri hópar en barnafjölskyldur sem þarf að koma til móts við? Hvaða áhrif hefur sykurskattur haft á neyslu? Er skynsamlegt að afnema undanþágur á fleiri sviðum en fólksflutningum í afþreyingarskyni?

Í vinnu nefndarinnar tekst vonandi að finna svör við þessum spurningum og fleirum sem kunna að vakna.

Nokkrir þingmenn minni hlutans hafa gert úr því umræðuefni að þingflokkur Framsóknar setti almennan fyrirvara við frumvarpið. Fyrirvarinn var í sjálfu sér eðlilegur þar sem þingmenn Framsóknar höfðu ekki haft mikinn tíma til að kynna sér málið og það þurfti að koma fram á fyrsta þingfundi ásamt fjárlagafrumvarpinu. Þeir vildu ekki tefja að það kæmi fram en settu þó þennan almenna fyrirvara. Það er í sjálfu sér eðlilegt að þingmenn setji fyrirvara um hvort mótvægisaðgerðir gegn hækkun matarskattsins, þ.e. niðurfelling vörugjalds, lækkun efra þrepsins í virðisaukanum og auknar barnabætur, dugi til að vega upp á móti hækkun lægra þrepsins og hvort það markmið náist í reynd að kjör allra hópa batni og verðlag lækki. Slíkur fyrirvari er ekki stórmál í sjálfu sér enda hefur hæstv. fjármálaráðherra sjálfur tekið fram að komi í ljós í vinnu þingsins að meginmarkmiðin náist ekki án lagfæringa megi gera slíkar lagfæringar.

Það er ekkert nýtt að fjárlagafrumvarp taki breytingum í meðförum þingsins og ég á einmitt von á því að hv. efnahags- og viðskiptanefnd fari vandlega yfir málið og leggi til úrbætur ef á þarf að halda svo það grundvallarmarkmið náist að skattbyrði allra hópa lækki, verðlag lækki og skattkerfið verði einfaldara.