144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[23:31]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Hann hafði að minnsta kosti manndóm í sér til að tala hér fyrir hönd Framsóknarflokksins og segja undanbragðalaust að það hefði verið gerður fyrirvari við frumvarpið. Það kallaði hv. þingmaður þó ekkert stórmál.

Ég verð að segja að mér finnst það vera stórmál og ég hugsa mjög mörgum öðrum að annar stjórnarflokkanna hafi gert almennan fyrirvara við eina meginstoðina undir tekjuöflun ríkisstjórnarinnar. Mér finnst að hv. þingmaður mætti útskýra betur í hverju þessi fyrirvari er fólginn. Ég rifja það upp að einn af þingmönnum Framsóknarflokksins, hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, sagði algerlega skýrt að þetta væri fyrirvari við matarskattinn. Ber þá að skilja það svo að hv. þingmaður styðji ekki frumvarpið í núverandi mynd?

Ég réði það af máli annars hv. þingmanns Framsóknarflokksins sem talaði hér í kvöld að hann gæti fyllilega stutt frumvarpið í þessu formi og taldi það vera í fullu samræmi við stjórnarstefnuna, en mig langar að spyrja hv. þingmann: Er hann einn af þeim í þingflokki Framsóknarflokksins sem telja að þurfi að breyta frumvarpinu? Varla hafa menn gert fyrirvara nema þeir hafi haft rökstuddar grunsemdir um að frumvarpið samræmdist ekki stefnu Framsóknarflokksins.

Síðan langar mig líka í tilefni af fyrri umræðum sem urðu hér í dag og spunnust af mjög prýðilegri grein hv. þingmanns um sykurskattinn að spyrja hvort hann sé þeirrar skoðunar að það sé óráð að afnema sykurskattinn. Miðað við hvernig hv. þingmaður hefur talað finnst mér ekki óeðlilegt að inna hann eftir því.