144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mikla sorgarsögu. Þessi umræddi vegur var tilbúinn til að fara í framkvæmd á árinu 2007. Þá lágu fyrir fjárveitingar, þá lá fyrir úrskurður hæstv. þáverandi umhverfisráðherra. Málið var hins vegar slegið út af borðinu með dómi Hæstaréttar, eins og við vitum, síðla árs 2009 sem þó fann ekkert að umhverfisþættinum heldur því að vikið var að umferðaröryggi í umhverfismatinu. Þetta er allt saman þyngra en tárum taki. Síðan hefur þetta mál staðið í skelfilegu stappi og er ekki tími til að rekja þá sögu hérna.

Nú stöndum við hins vegar frammi fyrir þessari stöðu. Skipulagsstofnun hefur komist að sinni niðurstöðu, hún er kæranleg og vitaskuld eru uppi ýmsir kostir í stöðunni. Ég ætla ekkert fyrir fram að útiloka neinn þeirra vegna þess að hið endanlega markmið hlýtur að vera það að við fáum bærilegan, viðunandi láglendisveg á þessum slóðum. Annað er ekki í myndinni.

Það er orðið fullreynt um þær hugmyndir sem uppi hafa verið, voru uppi á síðustu árum, um að fara yfir Hjallaháls og Ódrjúgsháls. Það er ekki viðunandi, það er í andstöðu við vilja heimamanna, það er í andstöðu við ríkjandi skipulag í Reykhólahreppi svo að það sé líka nefnt.

Kjarni málsins er bara sá að nú þurfum við að taka næstu skref. Niðurstaðan verður að vera sú að við förum láglendisveg. Ef til þurfa að koma sérstök lög af einhverju tagi, annaðhvort um vegagerð á þessum slóðum eða með einhverjum öðrum hætti, er ég tilbúinn til að fara í það og skoða það ef það reynist nauðsynlegt til að tryggja að láglendisvegur verði á þessum slóðum.

Það er rétt sem 5. þm. Norðvest. sagði hér rétt áðan, það hefur einnig verið bryddað upp á öðrum valkostum. Gallinn við þá kosti er hins vegar sá að kostnaðurinn er um það bil 3 milljörðum kr. meiri en að fara þá leið sem mest hefur verið deilt um. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að reyna á það mál betur og til hlítar en auðvitað útiloka ég enga kosti í þessum efnum ef það má verða til þess að tryggja góðar láglendissamgöngur milli höfuðborgarsvæðisins og sunnanverðra Vestfjarða.