144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þetta var athyglisverð umræða sem við áttum í gær um skattapakka ríkisstjórnarinnar, og ekki síst sú staðreynd að annar stjórnarflokkurinn hefur fyrirvara á málinu og þar með fjárlagafrumvarpinu þar sem þetta er hluti tekjuforsendna þess. Það skýrðist sem sagt hér í gær að það eru ekki bara sjö eða átta nafngreindir þingmenn Framsóknarflokksins sem ýmist eru á móti þessu frumvarpi eða hafa miklar efasemdir um það heldur er það þingflokkurinn í heild sem lagði niður bókaðan fyrirvara við stjórnarfrumvarp þó og væntanlega þar með talið ráðherrarnir sem sitja í þingflokknum.

En ég ætlaði að vekja athygli á öðru máli sem tengist þessu frumvarpi og reyndar hinu fylgifrumvarpi fjárlaganna líka, þ.e. mál sem heitir Ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps, og það er samhengi þessara mála við kjarasamningana. Ég fæ ekki betur séð en að þetta sé nokkuð svartur pakki í andlit aðila vinnumarkaðarins og kannski sérstaklega verkalýðshreyfingarinnar. Í þessum frumvörpum til samans er að finna í fyrsta lagi hækkun matarskattsins sem Alþýðusambandið, Starfsgreinasambandið og fleiri hafa lýst sig andvíg og telja að muni bitna sérstaklega þungt á kjörum tekjulægsta fólksins. Það er stytting atvinnuleysisbótatímabilsins um hálft ár, sex mánuði, án nokkurs samráðs við sveitarfélögin og aðila vinnumarkaðarins sem ég hygg að sé án fordæma. Það er að fella niður í áföngum greiðsluþátttöku ríkisins í gegnum tryggingagjald í jöfnun örorkubyrði lífeyrissjóða en í það hafa runnið háar fjárhæðir undanfarin ár, 3–4 milljarðar sennilega á núgildandi verðlagi.

Það er leggja engin framlög í Starfsendurhæfingarsjóð, það er að hækka lyfjakostnað á sjúklinga og þannig mætti lengi áfram telja. Þetta er nokkuð sver pakki og maður hlýtur að spyrja sig: Er þetta framlag ríkisstjórnarinnar til að reyna að stuðla að friði á vinnumarkaði? Ofan í það sem hér gerðist um síðustu áramót og eftirköstin af þeirri samningagerð sem skilur almennu verkalýðshreyfinguna eftir í sárum hafandi reynt að semja á mjög lágum nótum, (Forseti hringir.) fengið lítinn stuðning við það frá ríkinu og svo keyrir restin af vinnumarkaðnum fram úr þeim. Ég sé ekki annað, herra forseti, en að hér sé að teiknast til mikilla óefna.