144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það hefur verið mjög athyglisvert að fylgjast með umræðunni um skattapakka ríkisstjórnarinnar. Annars vegar höfum við heyrt málflutning eins konar frjálshyggjureglustikumanna sem hafa rætt skatta út frá fagurfræðilegu sjónarhorni. Hins vegar hafa verið hinir sem hafa reynt að gaumgæfa hverjum skattbreytingarnar gagnist og hverjum ekki.

Menn sjá augljóslega að þær gagnast gosdrykkjaframleiðendum en ekki fátæku fólki á Íslandi eða tekjulitlu vegna þess að matur þess og okkar allra mun hækka í verði. Þetta gagnast heldur ekki innlendri matvælaframleiðslu. Þess vegna er ekkert undarlegt að formaður Bændasamtaka Íslands skuli skrifa grein í blöðin, ein greina hans birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 13. september, þar sem hann varar við skattbreytingum eða skattáformum ríkisstjórnarinnar.

Mig langar að vitna í aðra grein sem birtist í sama blaði laugardaginn 23. ágúst eftir þingmann Framsóknarflokksins, hv. þm. Harald Einarsson. Hann segir hér í niðurlagi greinar sinnar:

„Stjórnvöld þurfa að vinna í sömu átt til þess að sem flestir geti átt jafnan aðgang að hollu mataræði og liðið vel í eigin líkama. Til þess þarf að huga að lýðheilsumarkmiðum þegar stefnan er mörkuð. Ég mun beita mér fyrir því.“

Þetta er góð grein sem hv. þm. Haraldur Einarsson skrifar og er hörð gagnrýni á skattapakka ríkisstjórnarinnar. Ég vil taka undir þessi sjónarmið. Umræðan er að aukast og örvast í þjóðfélaginu öllu, ekki bara hér á þingi. (Forseti hringir.) Ég tek eftir því að þar hafa framsóknarmenn sig mjög í frammi, og það er vel.