144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér hafa nokkuð verið reifuð þau tíðindi sem urðu í gærkvöldi þegar fram kom að gjörvallur þingflokkur Framsóknarflokksins bókaði fyrirvara við stjórnarfrumvarp, og ekki hvaða stjórnarfrumvarp sem er heldur fjárlagafrumvarp og tekjuöflunarfrumvarp sem því fylgir.

Ég vil vekja athygli þingheims á því að staðan er sú að ekki er stuðningur meiri hluta þingsins við framlagt fjárlagafrumvarp. Það er staðan. Fjármálaráðherra leggur fram fjárlagafrumvarp og minni hluti þingsins styður frumvarpið svo útlítandi. Það er stórmerkilegt.

Ég er ekki hissa á að mönnum hafi verið nokkuð brugðið við forsíðufrétt Fréttablaðsins á föstudaginn var þegar fram kom að Framsóknarflokkurinn í heild væri með fyrirvara á málinu. Hér hefur hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson tjáð sig og er að reyna að gíra sig í eitthvert stuð, en þegar fréttamaðurinn á Fréttablaðinu nær í hann fyrir blaðið á föstudaginn segir hann andstöðu samstarfsflokksins koma sér á óvart.

Ég spyr enn og velti fyrir mér hvort þessi bókaði fyrirvari í bókum þingflokks Framsóknarflokksins hafi verið birtur þingflokki sjálfstæðismanna því að það væri sannarlega ágætisnálgun í góðu samstarfi.

Hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafa úti í bæ talað ítrekað gegn matarskattinum og hækkun á honum. Bændasamtökin hafa mótmælt þessu máli svo harðlega að þau segja beinlínis að hækkun á matarskatti fari þvert gegn yfirlýstri stefnu ríkisstjórnarinnar um eflingu innlendrar matvælaframleiðslu og styrkingu byggða. Framsóknarfélag Skagafjarðar, eins og það leggur sig, leggst líka gegn matarskattinum og væri þá Bleik brugðið ef Framsóknarfélag Skagafjarðar væri ekki fánaberi í því hvernig (Forseti hringir.) Framsóknarflokknum líður að jafnaði.