144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:51]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er ég glaður. Ég er alveg ofboðslega glaður, sérðu hvað ég er glaður? (Gripið fram í.) Ha, ha, ég er mjög glaður. Að sjálfsögðu er ég glaður yfir að þessi vörugjöld séu tekin burt. En það er hægt að gera annað, það er líka hægt að lækka tolla á innflutt matvæli. Þetta eru 2 milljarðar á ári sem skila sér til baka sexfalt ef þeir eru allir teknir upp. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Það er satt.) Sexfalt! Það er skilvirknin sem ég er að kalla eftir.

Er hv. þingmaður ekki hæstánægður með það? Væri hann ekki glaður að sjá það gerast? Eigum við ekki að fara eitthvað í þá áttina? Ég væri mjög glaður ef við gætum gert það og á sama tíma tryggt að matvæli yrðu ekki dýrari fyrir fjölskyldurnar í landinu.

Þessar mótvægisaðgerðir ykkar virka ekki fyrir alla þótt mótvægisaðgerðirnar séu settar inn í bótakerfið sem er, eins og allir vita, stútfullt af götum sem fólk fellur ofan í. Allir mundu njóta góðs af lækkun á matarskattinum.

Ég veit, eða tel mig vita, hvað hv. þingmaður fer þá í, hann fer líklega að tala um humarinn. En við erum að tala um lífsnauðsynjar sem eru matvæli og við getum spurt: Hvað vilja landsmenn?

Viðskiptablaðið gerði könnun fyrr á árinu, hún kom út 6. mars og var fjallað um hana í blaðinu. Hvað kom út úr henni? Rúmlega 61% landsmanna vill afnema tolla á matvæli. Er hv. þingmaður ekki sammála því?