144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er mjög ánægður með að hv. þingmaður varð glaður — en því miður ekkert voðalega lengi. Hann fór strax að tala um að nú ætti að fella niður tolla. Ég er alveg sammála því, gerum það á næsta ári.

Mér finnst við taka óskaplega stórt skref hér, að lækka vörugjöld — ekki lækka þau, fyrirgefðu, herra forseti, fella þau niður. Vörugjöld á matvæli falla líka niður. Það er vörugjald á tómatsósu. Það eru vörugjöld á fjöldanum öllum af matvælum, þau lækka heilmikið þannig að heildarhækkun matvæla verður ekki nema 2–2,5%. Þar fyrir utan er óskaplega dýrt að reikna út öll þessi vörugjöld. Sennilega vinna hundruð manna við að reikna út vörugjöldin. Sú vinna fellur niður og fólkið getur gert eitthvað skynsamlegt.

Ég bið hv. þingmann að taka aftur upp gleðina, vera pínulítið ánægður með að þetta fyrsta skref sem er stórkostlegt, að fella niður vörugjöld, er stigið núna. Á næsta ári skulum við tala saman um frekari lækkanir á til dæmis tollafrumskóginum sem ég er sammála að sé næsta skref. Ég treysti einmitt hæstv. fjármálaráðherra, sem hér gengur fram hjá, til að taka það skref eins og hann gerir núna með vörugjöldin.