144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:55]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við erum hér að ræða skattamál, tekjufrumvarp ríkisstjórnarinnar. Ég hef reyndar komið á framfæri óánægju með að ekki liggi ljóst fyrir hvort þetta sé í raun og veru stefna ríkisstjórnarinnar eða ekki og hverju eigi að breyta. En látum það liggja á milli hluta að svo stöddu. Þetta mál vil ég skoða í stærra samhengi.

Hæstv. fjármálaráðherra segir að heildaráhrif af frumvarpinu séu jákvæð fyrir heimilin í landinu. Samkvæmt töflu á bls. 16 frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sem fylgir með þá lækkar afkoma ríkissjóðs um 3,7 milljarða út af þessum breytingum þannig að segja má að hæstv. fjármálaráðherra hafi rétt fyrir sér í því. En þetta er afkoma heimilanna að meðaltali. Við erum að tala um 125 þúsund heimili þar sem sum græða á breytingunum og fá aukinn kaupmátt á meðan kaupmáttur annarra heimila rýrnar enn frekar.

Skattkerfi eru svo skemmtileg af því að þau segja manni margt um samfélög og stjórnvöld á hverjum tíma. Við í Samfylkingunni tökum skattamál alvarlega. Við eigum að baki kjörtímabil þar sem við tókum ásamt Vinstri hreyfingunni – grænu framboði við ríkissjóði sem þurfti að reisa úr rústum og var með gríðarlegan halla. (Gripið fram í.) Í tilefni af því hækkuðum við ýmsa skatta og innleiddum nýja skatta, við þurftum að skera mikið niður og það var mjög erfitt.

Leiðarljós okkar í þessu var að auka jöfnuð í íslensku samfélagi því sem jafnaðarmenn trúum við því og teljum nægar sannanir fyrir hendi um það að samfélag þar sem jöfnuður er hvað mestur sé gott samfélag. Þar sé heilsufar betra, þar sé félagsleg samheldni betri, þar hafi flestir tækifæri til að þroska hæfileika sína og njóta þeirra gjafa sem lífið hefur upp á að bjóða.

Þetta voru erfiðir tímar og þó að við næðum að auka jöfnuð og úti um heimsbyggðina hafi verið litið til okkar fyrir ótrúleg afrek, eitt OECD-ríkja sem fór í gegnum kreppuna og tókst að auka jöfnuð eftir skefjalausa aukningu ójafnaðar í tíð Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, (VigH: Samfylkingin sex ár í ríkisstjórn.) þá var ekki auðvelt fyrir íbúa landsins að fara í gegnum það að rétta af ríkissjóð. Þetta krafðist mikilla fórn og erfiðra ára. En við innleiddum auðlegðarskatt á allra ríkustu heimilin á Íslandi og eignamestu. (Gripið fram í.) Við innleiddum sykurskatt og jukum kolefnisskatta og svo mætti lengi telja.

Framlag Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins til þeirra vandasömu verkefna var að standa hér uppi og hía á okkur með undirspil Viðskiptaráðs að baki sem taldi saman allar skattkerfisbreytingar vondu vinstri stjórnarinnar. Þeir töldu meira að segja til eðlilegar lögbundnar verðlagsuppfærslur. Það var framlag Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks til þess vandasama verkefnis sem var að endurreisa ríkissjóð hér eftir hrun.

Okkur tókst þó eftir ótrúleg afrek á þessu sviði að byrja að bæta upp hópunum sem höfðu mesta þörf fyrir það. Má þar nefna innleiðingar á nýju barnatannlækningakerfi, sem á að bæta tannheilsu barna og dregur stórkostlega úr kostnaði fjölskyldna vegna tannlækninga barna. Við lögðum Landspítalanum til meira fé, þó að það væri langt í frá nóg. Nú vantar þar að minnsta kosti 1,5 milljarða samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Það er líka hluti af því sem á einhvern veginn að galdrast í lag hér á milli umræðna.

Við byrjuðum að hækka fæðingarorlofið, við hækkuðum barnabætur og húsaleigubætur. Ég ætla ekki að fara í lengri upptalningar, en við töldum að þeir sem höfðu borið þessar erfiðu byrðar og þurft að líða mest fyrir aðstæður hér á landi ættu að njóta ávinningsins sem væri að skapast eftir mjög erfið ár. (Gripið fram í.)

Nú erum við að koma inn í annað fjárlagaár ríkisstjórnarinnar og myndin er að teiknast betur og betur upp. Það er svo mikilvægt að við ræðum nokkrar breytingar sem á að gera á einu ári í samhengi við stefnuna og aðrar aðgerðir. Í fyrra var frítekjumark fjármagnstekna hækkað, þannig að þar varð meiri afsláttur þar. Miðjuþrepið var hækkað, það kom ekki til tals að hægt væri að hækka lægsta þrepið. Auðlegðarskattur var ekki framlengdur, veiðigjöld voru lækkuð og enn hefur því verið fram haldið. Þar byrjaði því stefnumörkunin sem snýr að því að ívilna þeim sem mest eiga og hæstar tekjur hafa í þessu samfélagi á kostnað þeirra sem minnst hafa og venjulegra fjölskyldna.

Núna er þetta fest mjög skýrt í orð. Við erum ekki eingöngu að ræða um þá smán sem fylgir því að hækka matarskatt — sumir hafa leyft sér að fara út í eitthvert þref um kaup á ísskápum í því samhengi. Nei, við erum líka að ræða þá stefnumörkun sem fram kemur. Það á að einfalda tekjuskattskerfið, hætta við þrepaskattsskipt tekjuskattskerfi. Það á ekki að gera núna, það er boðað á næsta ári. Og það á að vera skilvirkt og flatt, sem þýðir að þeir sem minna hafa borga hlutfallslega meira. Það eykur ójöfnuð, rétt eins og breytingarnar sem hér voru gerðar af Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki sem gerðu okkur nánast að heimsmeisturum í hraða á vaxandi ójöfnuði.

Það er í þessu samhengi sem við verðum að ræða þessi mál. Þetta lýtur ekki bara að næsta fjárlagaári. Þetta er stefnumörkun fyrir það hvers konar samfélag við viljum skapa á Íslandi, hvernig við viljum að samfélagið þróist á Íslandi.

Síðan vantar frekari útfærslur. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er farið vel yfir alvarleg hagstjórnarmistök sem leiddu hér til ofhitnunar í hagkerfinu. Þetta flata og skilvirka skattkerfi með lægri sköttum kallar annaðhvort á frekari niðurskurð í samneyslunni eða of heitt hagkerfi sem aflar tímabundið nægilegra tekna fyrir ríkissjóð. Hægri menn geta sagt: Við viljum lága skatta, á meðan við vinstri og jafnaðarmenn segjum: Skattheimta er ekki markmið. Markmiðið er samfélag jöfnuðar og samfélag með góðri almannaþjónustu sem allir hafa aðgengi að, óháð efnahag; menntakerfi og heilbrigðiskerfi í fremstu röð sem allir hafa aðgengi að.

Til að ná þessum markmiðum verðum við að innheimta skatta og við verðum að vera manneskjur til þess að standa með slíku. Það höfum við gert í Samfylkingunni og félagar okkar í VG. Við áttum ekkert erfitt með að hrista af okkur tygin með undirleik Samtaka atvinnulífsins. En það er algjörlega ljóst að við munum ekki standa hjá, við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að hrinda því að hægri stjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar snúi hér aftur samfélaginu í átt að ójöfnuði þar sem ríkustu einstaklingarnir og bestu vinir aðal eru forréttindastétt og þeir sem minna hafa geta leitað á náðir hjálparstofnana.

Síðan má fara í fræðilegar umræður um skattheimtu og hvernig eigi að byggja hana upp því að auðvitað eiga skattkerfi að vera skilvirk. En skilvirknin verður að taka mið af því hvers konar samfélagi við viljum búa í og hvaða markmiðum við viljum ná. Við teljum breytingarnar sem hér eru boðaðar slæmar. Ef einhverjir hafa áhyggjur af því að ég sé ekki nógu glöð, nei, þá er ég ekki nógu glöð. Ég er mjög kvíðin og breyting á vörugjöldum breytir litlu þar um þó að ég geti sannarlega glaðst yfir þeim afmarkaða þætti, ef frá er talinn sykurskatturinn, skattur á sykraðar vörur. Það er síðast í dag sem við sjáum að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og ráðgjafar stjórnvalda í Englandi vilja leita leiða til að draga úr sykurneyslu, enda hefur hún mjög neikvæð áhrif á tannheilsu. Og þótt sykur sé örugglega ágætur er of hátt hlutfall af orkuinntöku okkar að meðaltali úr sykruðum vörum. Leiðin til þess að draga úr sykurneyslu er m.a. í gegnum verðlagningu og í samhengi við annað vöruverð.

Hæstv. forseti. Ég biðst velvirðingar á því að hafa í raun og veru ekki farið nánar út í einstakar greinar frumvarpsins heldur farið meira í heildarmyndina, enda hlýt ég líka að spyrja mig hver sé í raun og veru ástæðan til þess ef ekkert er að marka sem þarna stendur. En ég óttast að um stefnuna sem mörkuð er í þessu riti sé samstaða í stjórnarflokkunum. Það er sú stefna sem ég mun mótmæla og reyna að hafa áhrif á að horfið verði af braut vaxandi ójafnaðar sem hægri stjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar boðar. Ég vona að þingmenn Framsóknarflokksins, sem virðast vera nokkuð sprækir þegar kemur að því að krefjast breytinga, setjist saman á þingflokksfundi og ræði þá stefnumörkun sem fram kemur í riti hæstv. fjármálaráðherra, og má lesa um m.a. hér á blaðsíðum 6–9, og velti því fyrir sér hvort Framsóknarflokkurinn standi í raun og veru fyrir slíka stefnu. Svo megið þið koma þegar því er lokið og tilkynna okkur um niðurstöðurnar.