144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:11]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég biðst velvirðingar en ég var að fá staðfestingu á því að hæstv. menntamálaráðherra hefði haft þau ummæli í Ríkisútvarpinu í gær sem ég ætlaði að fá að vitna til í síðari ræðu minni, ég fjallaði um matarskattinn í gær.

Svo vont er fjárlagafrumvarpið árið 2015 að annar stjórnarflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, hefur þegar sagt sig frá málinu og sett við það almennan fyrirvara meðan ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, hver um annan þveran, kalla eftir mótvægisaðgerðum við sínu eigin frumvarpi. Fyrst hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson, sem kallar eftir því að hér verði skoðaðar sérstaklega mótvægisaðgerðir við því frumvarpi sem hann lagði fram fyrir örfáum dögum síðan og þá yfirlýsing hans um að frumvarpið sé svo vont að það þurfi að grípa til mótvægisaðgerða gegn tillögum hans sjálfs, og síðan frá hæstv. menntamálaráðherra í kjölfarið sem kallar eftir mótvægisaðgerðum við hækkun á skatti á bækur í landinu.

Það er eðlilegt að menntamálaráðherrann hafi áhyggjur af því, hann hefur haft áhyggjur af læsi og það vita allir hversu mikilvægt það er fyrir íslenska menningu að bækur séu í lágu virðisaukaskattsþrepi. En það er býsna merkilegt að hæstv. menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson hefur varað fjármálaráðherra sérstaklega við afleiðingunum af því að hækka skatt á bækur og segir að ef það eigi að hækka þann skatt sé nauðsynlegt að skoða mótvægisaðgerðir, þ.e. honum þykir aðgerðin svo vond að það þurfi að grípa til mótvægisaðgerða.

Í Ríkisútvarpinu í gær nefnir hæstv. menntamálaráðherra að menn hafi til dæmis rætt um í því sambandi að undanþiggja fræðibækur virðisaukaskatti. Hvar er þá Sjálfstæðisflokkurinn og hæstv. menntamálaráðherra, hagfræðingurinn í þeirra hópi, kominn í einföldun á virðisaukaskattskerfinu ef afleiðingarnar af því að hækka virðisaukaskatt á bækur eiga að vera þær að það þurfi að búa til nýjar og alveg sérstakar undanþágur fyrir sumar bækur? Hvernig á þá að fara með skilgreiningar í því efni hjá embætti ríkisskattstjóra og hvaða einföldun er í því fólgin ef ríkisskattstjóri þarf að setja upp sérstaka rannsóknarstofnun til þess að skera úr um það hvaða bækur eru fræðibækur og hverjar ekki? Gætum við, virðulegi forseti, fengið hæstv. menntamálaráðherra hér til umræðunnar til þess að skýra til dæmis fyrir okkur í hvaða flokk bók Stefáns Pálssonar, sem nú er í vinnslu, um bjórinn falli? Er það fræðibók eða er það afþreyingarbók eða eitthvað allt annað? Og hvar lenda ritverk dr. Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar í þessari flokkun sem eru nú að uppistöðu til, a.m.k sum hver, tilvitnanir í skáldverk annarra manna? Eru það skáldverk eða eru það fræðirit?

Hvernig á ríkisskattstjóri að taka afstöðu til þessa? Ævisögur einstakra stjórnmálamanna sem greina nokkuð nákvæmlega frá því hvernig viðkomandi stjórnmálamaður sjálfur hefur haft úrslitaáhrif á gang veraldarsögunnar, eru það fræðirit eða eru það skáldsögur? Hvernig sér hæstv. menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson og félagar hans í Sjálftæðisflokknum fyrir sér að skattkerfið sé einfaldað með þessum hætti ef nú á að hækka virðisaukaskatt á bækur í landinu úr 7% í 12% en undanþiggja síðan fræðibækur og einnig voru barnabækur nefndar og aðrar bækur sem eiga ekki mikinn markað? Hvaða bækur eru þá skrifaðar fyrir börn? Hver ætlar að úrskurða um það og hvar er einfaldleikinn í þessum breytingum sem hér hafa verið boðaðar?

Virðulegur forseti. Með leyfi að spyrja: Hvers eiga íslenskar bókmenntir að gjalda? Er þetta þannig í huga hæstv. menntamálaráðherra að ástæða sé til þess að undanþiggja þessum álögum fræðirit sérstaklega, en að íslensk skáldverk eigi að bera þessar hækkanir með fullum þunga? Af hverju á þá ekki líka að undanþiggja íslenskan skáldskap frá hækkununum? Getur ríkisskattstjóri ekki fengið enn fleiri verkefni við að skilgreina hvað fellur í hvaða flokk?

Nei, þetta er allt orðið með miklum endemum og sannarlega engin einföldun í hugmyndum ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) um breytingar á virðisaukaskatti á bækur.