144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:44]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa nokkurri undrun með þessa ræðu hæstv. fjármálaráðherra. Honum er ekki lagið að auka fylgi við frumvörp sem hann flytur og sé ég mig nauðbeygðan að koma í ræðu á eftir til þess að leiðrétta allar þær missagnir sem hæstv. ráðherra fór með í ræðu sinni og svigurmæli hans í garð míns flokks sem engin innstæða er fyrir. Það eru hrein ósannindi. Það er eiginlega alveg sérkennilegt að hlusta á hæstv. ráðherra, sem kemur hér berrassaður með frumvarp til Alþingis sem hann hefur ekki þingmeirihluta fyrir, byrja á að ata stjórnarandstöðu auri og bera upp á hana upplognar sakir. Það er satt að segja alveg undrunarvert.

Ég held að það sé nær að hæstv. ráðherra svari nú einni spurningu sem ég ætla að beina til hans í þessu andsvari: Vissi hæstv. ráðherra áður en hann lagði þetta frumvarp fram að hann hefði ekki þingmeirihluta fyrir því? Vissi hann af hinum skýra fyrirvara sem færður hefur verið í fundargerðabók þingflokks Framsóknarflokksins um fjárlagafrumvarpið og þá sérstaklega þetta fylgifrumvarp? Vissi hann, eins og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, aðstoðarmaður forsætisráðherra, hefur skýrt frá opinberlega, að þingflokkur Framsóknarflokksins hefði í heild gert fyrirvara? Það hefur verið staðfest síðan, m.a. af formanni þeirrar nefndar sem mun fá þetta frumvarp til meðferðar.

Ef hæstv. ráðherra vissi það, er þetta frumvarp þá á ábyrgð hans eins? Er það sem sagt lagt hér fram til að reyna að semja um framgang þess við stjórnarandstöðuna? Fyrirvari Framsóknarflokksins lýtur ekki að samþykkt frumvarpsins eins og það er nú útbúið og hann kallar á aðrar aðgerðir. Mér finnst eðlilegt að fjármálaráðherra svari því hér á hvaða vegferð hann er með þetta frumvarp og í hvers konar skógarferð hann er kominn með ríkisfjármálin.