144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:01]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra trúr. Ég kannast svo sannarlega við að hafa þurft að grípa til harðra ráða. Auðvitað þurfti að hækka hér skatta. Hæstv. fjármálaráðherra sagði undir lok sinnar ræðu að það hefði verið nauðsynlegt. Það er aldeilis rétt. Ég var í þeirri ríkisstjórn. Það var Sjálfstæðisflokkurinn líka. En það var ekki hægt að nota hann. Sjálfstæðisflokkurinn glúpnaði þegar hann horfði inn í myrkrið. Hann hafði engin ráð. Það var þess vegna sem það urðu ríkisstjórnarskipti. Það var einfaldlega þannig að Sjálfstæðisflokkurinn bilaði í hnjánum. Það var ekki hægt að vinna með honum til þess að róa þjóðinni út úr þessum brimskafli. Það er (Gripið fram í.) staðreyndin, hvað sem menn segja. (Gripið fram í.) Það er von að þeir fari af hjörunum, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og jafnvel hæstv. fjármálaráðherra. Þetta eru staðreyndirnar. (Gripið fram í.) Það er ekki hægt að skrúfa það til baka. Þeir hefðu gott af því, þeir tveir (Gripið fram í.) hv. félagar og hæstv. ráðherra, að lesa aftur rannsóknarskýrsluna. Þar segir algjörlega skýrt hvar upphafið var. En ég skil það vel að erfitt sé að horfast í augu við það. (Gripið fram í.) Kannski hefur hæstv. fjármálaráðherra, (Forseti hringir.) kjarkmennið sem hann er, ekki andlegt þrek til þess. Ég skil það vel. (Gripið fram í: Var þetta bankamálaráðuneytið?)