144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Við bentum á valkost. Ég ætlaði reyndar ekki að fara mjög djúpt í þá umræðu sem átti sér stað um áherslur í skattamálum á síðasta kjörtímabili. Ég hef þegar gert grein fyrir því hvers vegna ég sá mig knúinn til þess að rifja þetta upp, það var til þess að setja í samhengi hlutina sem er verið að rugla með í þessari umræðu. Við bentum á valkost við þá skattahækkunarleið sem farin var. Við bentum á aðrar leiðir, en þessi varð ofan á og hún hafði tímabundið meiri hluta í þinginu. Gott og vel, það var niðurstaðan. Niðurstaðan var sú að leggja auknar byrðar á heimili og atvinnulíf við mjög erfiðar aðstæður. Afleiðingin var sú að einkaneysla hélt áfram að dragast saman, skuldir heimilanna urðu því sem næst óviðráðanlegar og atvinnulífið hætti að fjárfesta. Allt fyrirséð og samkvæmt því sem við höfðum spáð.

Nú erum við komin á árið 2014. Við erum að vinna í því að létta af sköttum og byrðum af heimilunum. Það sem ég færði fram undir lok umræðunnar var að það er rangt sem sagt hefur verið í þessari umræðu að í þessum aðgerðum felist skattahækkun. Það er rangt. Þeir sem vilja raunverulega taka málefnalega umræðu um áhrif þessara frumvarpa lenda í rökþroti með þann málflutning að skattalækkun sé skattahækkun. Það er bara þannig.

Það er auðvelt að taka sér þá stöðu í þessu máli að leggjast eingöngu gegn þeim hluta aðgerðanna sem hækkar skatta, en dásama allar aðgerðir sem lækka skatta. Mér finnst það óábyrgt. Mér finnst það í besta falli tilraun til þess að slá sig til riddara hér. Í versta falli er það hræsnaraskapur vegna þess að í sjálfu sér er ekki boðið upp á neina heildarlausn með slíkum málflutningi. Við náum hér fjölmörgum markmiðum í einu. Eitt er það að ná jöfnuði í ríkisfjármálin, hætta skuldasöfnuninni (Forseti hringir.) og nú fer hagur ríkisins batnandi eins og langtímaáætlanir sýna.