144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:16]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt. Sjálfstæðisflokkurinn bauð upp á valkost, hann var með aðrar hugmyndir. Við skulum endilega ræða það vegna þess að það hefur gildi gagnvart umræðum um ríkisfjármál og hagstjórn að ræða þá möguleika sem menn telja vera í stöðunni og hvernig þeir vilja takast á við vandamál þegar þau koma upp.

Sjálfstæðisflokkurinn bauð fyrst og fremst upp á þann valkost að seilast í framtíðarskatttekjur ríkis- og sveitarfélaga út úr lífeyrissjóðakerfinu. (Gripið fram í.) Þannig átti að taka á vandanum. Hvað hefði það þýtt? Það var lántaka hjá næstu og þar næstu kynslóð. Það var ábyrgðin sem Sjálfstæðisflokkurinn sýndi þegar við stóðum frammi fyrir því að takast á við afleiðingar af hruninu sem var á hans ábyrgð umfram alla aðra flokka, um það verður ekki deilt. Þannig að við skulum endilega ræða þetta. Þetta skiptir nefnilega máli.

Þá hefði sú kynslóð sem var ábyrg fyrir hruninu, í yfirfærðri merkingu þess orðs, hlíft sjálfri sér við að taka á sig óþægindin en látið börnin og barnabörnin borga reikninginn. Upp að vissu marki er Sjálfstæðisflokkurinn enn á sömu braut. Hann er að lækka skatta og slær um sig með því, situr í staðinn uppi með afkomu á ríkissjóði sem er í járnum næstu þrjú árin og enga niðurgreiðslu skulda að nafnverði — það lækkar lítillega sem hlutfall af vaxandi landsframleiðslu en ekki að nafnvirði. Staðan er erfiðari inn í framtíðina í staðinn. Við erum lögð af stað inn á þá ábyrgðarlausu braut að hafa það gott í núinu, hlífa okkur sjálfum, en ætla framtíðinni að takast á við vandann. Það er ekki mikil reisn yfir því, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Við skulum endilega taka okkur góðan tíma, herra forseti, hér á Alþingi á næstu dögum og vikum til að ræða þessi mál í þaula því þau skipta máli.