144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar unnið er að skattalækkunum og sérstaklega fyrir tekjulægstu hópana er eitt sem skiptir máli varðandi svigrúm ríkisins til aðgerða, það er þetta hér: Tekur ríkið yfir höfuð einhvern tekjuskatt af viðkomandi tekjuhópi? Þegar við erum að tala um tekjuhópa í kringum 200 þús. kr. hefur ríkið ekki úr miklu að spila. Það tekur engan tekjuskatt. Einungis er greitt útsvar af slíkum tekjum og upp undir 240 þús. kr., eða þar um bil, eins og staðan var undir lok síðasta árs. Það var því mjög holur hljómur í þeirri gagnrýni sem fram kom á þeim tíma að það væri ekki nægilega mikið að gert fyrir fólk með allra lægstu launin vegna þess að það var ekki úr neinu að spila. Aðgerðirnar voru hins vegar þannig smíðaðar að þær léttu sköttum af þeim sem höfðu fengið á sig auknar byrðar.

Síðan er því haldið fram hér að sjö af tíu tekjubilum hafi komist betur frá skattbreytingunum á síðasta kjörtímabili en ef þær hefðu ekki komið til sögunnar. Það er auðvitað alveg ótrúleg skýring vegna þess að tekjuskattsprósentan var hækkuð á alla yfir um 240–250 þús. kr., tekjuskattsprósentan var hækkuð og svo kom þriðja þrepið á þá sem voru þar enn fyrir ofan, um 700 þús. kr., og um tíma hafði persónuafslátturinn verið slitinn úr tengslum við vísitölu neysluverðs. Það er því með einhverjum óskiljanlegum reiknikúnstum sem menn geta fengið það út að það að hækka tekjuskattsprósentuna og afnema verðtryggingu persónuafsláttar komi sér betur fyrir sjö af tíu tekjubilum. Auðvitað stenst það (Forseti hringir.) enga skoðun.