144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætisbyrjun að nú er formaður Samfylkingarinnar farinn að kannast við að ríkisstjórnin sé að lækka skatta. Það er ágætisbyrjun á því sem fram undan er, að nú hefur það loksins verið viðurkennt að þær aðgerðir sem við vinnum að hér feli í sér skattalækkun en ekki skattahækkun eins og staglað hefur verið á í umræðunni. Varðandi breytingarnar sem gerðar voru í fyrra þá er það alveg rétt að við vildum vinda ofan af skattahækkun á þá sem mestar byrðar höfðu axlað hjá vinstri stjórninni með nýjum sköttum. Það er alveg rétt, við vildum vinda ofan af ósanngjörnum skattkerfisbreytingum.

Reyndar verð ég að segja að ég furða mig á þeirri nálgun, sem mér finnst heyrast of oft hér í ræðustól, að skipta samfélaginu upp í hópa, vini og óvini; þetta eru þeir sem við viljum berjast fyrir, okkur er sama um hina o.s.frv. Hér var nefnd fjölskylda með 800 þús. kr. í tekjur. Það er ekki fólkið sem Samfylkingin vill berjast fyrir. Það er ágætt að vita það. Það eru sem sagt hjón með meðallaun. Það er ekki fólkið sem Samfylkingin, kennarar til dæmis, hjón í kennslu með 800 þús. kr., ætlar að leggja sig eftir að bæta kjörin hjá ef ég skil þetta rétt

Hv. þingmaður sagði hér að þeir sem væru með 800 þús. kr. í heimilistekjur, eins og ég skildi það, hefðu alls ekkert átt að fá neina kjarabót með skattalækkunum (Gripið fram í.) í fyrra. Það væru aðrir sem ættu rétt á því. En þeir sem höfðu tvöföld meðallaun á heimili, það var fólkið sem hafði fengið meira á sig í skattahækkanir en hinir. Það er nú bara eðli þessa máls.

Ég sé að hv. þingmaður er ósáttur við þetta. Það er þá ágætt að hann komi hingað upp og geri grein fyrir því að þau heimili sem eru með tvöföld meðallaun eigi inni skattalækkun eftir síðasta (Forseti hringir.) kjörtímabil.