144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[17:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015. Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem snúa að tekju- eða gjaldahlið ríkissjóðs í samræmi við forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015. Rétt er að vekja athygli á því að í frumvarpinu eru ekki lagðar til verðhækkanir á krónutölugjöldum eins og gengið er út frá í tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins. Samhliða þessu frumvarpi er lagt fram frumvarp til laga um breytingar á lögum um virðisaukaskatt og vörugjald, auk mótvægisaðgerða í formi breytinga á ákvæðum tekjuskattslaga um barnabætur.

Meginástæða þess ósamræmis sem ég vísa til er sú staðreynd að hér er verið að leggja fram í fyrsta sinn tekjuöflunarfrumvörpin og fjárlagafrumvarpið í septembermánuði og frágangur á tekjuöflunarfrumvörpum tók ívið lengri tíma en frágangur fjárlagafrumvarpsins sjálfs sem varð að ljúka í júnímánuði en í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir eilítið annarri útfærslu um þessi mál eins og ég hef vikið að. Breytingarnar eru þó fyrst og fremst til hagsbóta fyrir skattgreiðendur.

Það atriði sem ég nefni hér strax í upphafi, um krónutölugjöld og skatta, var þó nokkuð til umræðu undir lok síðasta árs og varð tilefni yfirlýsingar frá ríkisstjórninni um að á kjörtímabilinu mundu slík gjöld og slíkir skattar ekki verða hækkaðir umfram verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands. Það þýðir að loforðið stóð til þess að gjöldin yrðu ekki hækkuð nema í mesta lagi um 2,5%. Með þeim breytingum sem gerðar voru síðastliðið vor á þessum gjöldum í samræmi við yfirlýsingu sem fram kom í desembermánuði var dregið úr hækkun fyrir árið 2014 og slegin af áform um 3% hækkun gjaldanna og 1% tekið af þeirri hækkun. Það hefur gilt frá því að þau lög tóku gildi.

Nú liggur það fyrir að á næsta ári er lagt upp með að það verði engin hækkun. Það er ákveðið umhugsunarefni fyrir okkur í þessu samhengi hvort það er eðlilegt að ríkið áskilji sér ávallt hækkun á slíkum gjöldum í samræmi við vænt verðlag vegna þess að slíkar breytingar eru á sinn hátt til þess fallnar að láta verðbólguspár, jafnvel þótt þær séu umfram þau markmið sem við höfum sett okkur opinberlega, rætast. Þannig má halda því fram að ríkið eigi að jafnaði að sýna það fordæmi að reyna að halda aftur af slíkum hækkunum og hafa til hliðsjónar verðbólgumarkmiðin í landinu. Hin hliðin á þessu er sú að með því rýrna krónutölugjöld og skattar mögulega að raungildi yfir tíma. Það verður að vera hluti þeirrar umræðu hvernig eigi þá að bregðast við því fari menn illa út af sporinu hvað það snertir að halda aftur af verðbólgunni.

Meginefni þessa frumvarps eru af ólíkum toga og ég mun nú fjalla um hvert þeirra fyrir sig.

1. Starfsendurhæfingarsjóðir. Fyrst ber að nefna að lögð er til framlenging á ákvæði laga um tryggingagjald sem kveður á um að starfsendurhæfingarsjóðir fái ekki tekjur af almennu tryggingagjaldi á árinu 2015. Sambærilegt ákvæði hefur verið í gildi fyrir árin 2013 og 2014, m.a. með hliðsjón af sterkri stöðu VIRK, en varasjóður VIRK var orðinn tæplega 2,3 milljarðar kr. í árslok 2013 eða um 1 milljarði kr. hærri en rekstrarkostnaður sjóðsins það ár. Miðað við núgildandi tryggingagjaldsstofn mundi 0,13% hlutdeild fela í sér 1,3 milljarða kr. framlag úr ríkissjóði á ári en með þessari breytingu er komið í veg fyrir að þau falli til á árinu 2015. Verði frumvarpið að lögum mun afkoma ríkissjóðs verða sem því nemur betri en ella hefði orðið.

2. Hlutdeild lífeyrissjóða í tekjum af almennu tryggingagjaldi til jöfnunar og lækkunar örorkubyrði. Áformað er að taka það fyrirkomulag sem nú er í gildi varðandi jöfnun og lækkun örorkubyrði með aðkomu ríkisins til heildarendurskoðunar. Því er lagt til að 0,325% hlutdeild lífeyrissjóða í tekjum af almennu tryggingagjaldi til jöfnunar og lækkunar örorkubyrði lífeyrissjóða verði lækkuð árlega um 20%, í fyrsta sinn 2015, þar til hlutdeildin hefur fjarað út á árinu 2019. Áhrif þessarar breytingar fela í sér 312 millj. kr. útgjaldalækkun fyrir ríkissjóð frá fjárlögum yfirstandandi árs, 2014.

Um þetta er það að segja að framlag ríkisins til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða á rætur sínar að rekja til samkomulags sem gert var í tengslum við gerð kjarasamninga á sínum tíma og hefur ríkissjóður greitt á tímabilinu um það bil 20 milljarða til lífeyrissjóðanna til að létta þeim það verkefni að deila örorkubyrðinni, jafna hana milli lífeyrissjóða. Á þeim tíma var staða ríkissjóðs mjög sterk. Það eru allt aðrar horfur í ríkisrekstrinum í dag og ríkisfjármálin eru í járnum. Mín skoðun er sú að við þurfum að taka þetta samkomulag frá þeim tíma upp til heildarendurskoðunar, eins og hér er boðað, og finna aðrar leiðir fyrir lífeyrissjóðina til að takast á við þennan vanda. Þar er ekkert útilokað fyrir fram, en eins og nú horfir í fjármálum ríkisins þykir það ekki vera verjandi að halda fyrirkomulaginu óbreyttu til framtíðar.

Eins og ég segi er ekkert fyrir fram útilokað varðandi útfærslu við þá heildarendurskoðun. Það má sjá ýmislegt fyrir sér. Það að lögfesta heimild fyrir lífeyrissjóðina til að deila þessari byrði sín í milli er ein útfærsla, að taka það til skoðunar hvort rétt sé að beita sömu tryggingafræðilegu útreikningum fyrir alla sjóði alveg óháð örorkubyrði er annað sem hlýtur að koma til skoðunar og eflaust margt fleira sem ég ætla ekki að reyna að tæma hér í stuttu máli.

Aðalatriðið er að ríkið telur þörf á heildarendurskoðun þessa fyrirkomulags.

3. Breyting á lægsta þrepi tekjuskatts og hámarksútsvari framlengd. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að sú tímabundna breyting sem samþykkt var á síðasta ári, vegna tilfærslu á þjónustu við fatlaða milli ríkis og sveitarfélaga, um lækkun lægsta þreps tekjuskatts manna um 0,04 prósentustig, úr 22,9% í 22,86% í staðgreiðslu á árinu 2014 og við álagningu á árinu 2015 verði framlengd tímabundið um eitt ár. Hið sama á við um þá breytingu sem gerð var á lögum um tekjustofna sveitarfélaga þar sem hámarksútsvar var hækkað um 0,04 prósentustig, úr 14,48% í 14,52% á árinu 2014. Að óbreyttu er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs hefðu aukist um 460 millj. kr. Verði frumvarpið að lögum mun afkoma ríkissjóðs því versna um 460 millj. kr. frá því sem ella hefði orðið.

4. Vaxtabætur. Í ljósi þess að nú er unnið að endurskoðun á vaxtabótakerfinu og húsaleigubótakerfinu með þau áform að sameina þessi tvö kerfi í eitt húsnæðisbótakerfi er lagt til að tímabundin hækkun á vaxtabótum, sem að óbreyttu hefði fallið niður um næstu áramót, verði framlengd um eitt ár. Reiknireglur og viðmiðunarfjárhæðir vaxtabótakerfisins munu því haldast óbreyttar milli áranna 2014 og 2015. Ef tímabundin hækkun á hámarksfjárhæðum vaxtabóta og lækkun á skerðingarmörkum vegna eigna hefði fallið niður að óbreyttum lögum mundu áhrifin á ríkissjóð fela í sér 800 millj. kr. í aukin útgjöld á árinu 2015. Verði frumvarpið að lögum mun afkoma ríkissjóðs batna sem því nemur.

5. Gjald vegna kostnaðar við rekstur Fjármálaeftirlitsins. Lagðar eru til breytingar á gjaldhlutföllum samkvæmt ákvæðum laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, en miðað er við að þau gjöld eigi að standa undir kostnaði vegna reksturs Fjármálaeftirlitsins. Miðað er við rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2015 sem gerir ráð fyrir að kostnaður við rekstur stofnunarinnar nemi 1.987 millj. kr. á komandi ári. Í samræmi við ákvæði laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi er jafnframt tekið mið af áætluðum rekstrarafgangi stofnunarinnar í árslok 2014 að frádregnum varasjóði upp á 92,8 millj. kr. Innheimtunni er samkvæmt því ætlað að skila tekjum sem svara til um 1.636,9 millj. kr. Tekjur af eftirlitsgjaldinu eru markaðar Fjármálaeftirlitinu og renna því til stofnunarinnar en gert er ráð fyrir að þær hækki um 55,5 millj. kr. frá fjárlögum 2014. Verði frumvarpið að lögum mun þessi breyting því ekki hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs.

6. Sóknargjöld. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að föst krónutala sóknargjalda hækki úr 750 kr. á mánuði í 810 kr. fyrir árið 2015. Lögboðið framlag til sókna þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga breytist að öllu jöfnu í samræmi við áætlaða breytingu á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga 16 ára og eldri, sem og fjölgun einstaklinga. Nú er hins vegar, eins og gildir um þetta ár, gert ráð fyrir að fastsetja fjárhæð sóknargjalda. Miðað við að sóknargjaldið væri óbreytt, þ.e. 750 krónur, hækkar framlagið samkvæmt þessari tillögu um 208 millj. kr. frá því sem annars hefði orðið. Að teknu tilliti til tímabundinna framlaga sem veitt eru í fjárlögum ársins 2014 til viðbótar við útreiknuð sóknargjöld nemur heildarhækkunin 124,7 millj. kr. frá fjárlögum 2014.

7. Framlag til þjóðkirkjunnar. Lagt er til að skuldbinding ríkissjóðs á árinu 2015 gagnvart þjóðkirkjunni, samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar, muni hækka um 39,2 millj. kr. og verða 1.486,9 millj. kr. á næsta ári. Jafnframt er gert ráð fyrir að framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs lækki um 1,1 millj. kr. á árinu 2015 og verði 72 millj. kr.

8. Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra. Í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins er lögð til 2,5% hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra. Þannig verður gjaldið 10.159 kr. á hvern gjaldanda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2015 sem áætlað er að skili ríkissjóði aukalega tæpum 50 millj. kr.

9. Rekstrarkostnaður hjúkrunarrýma og kostnaðarþátttaka heimilismanna. Lagt er til að í lög um málefni aldraðra verði bætt nýju ákvæði til bráðabirgða til að koma í veg fyrir að kostnaðarþátttaka heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum aukist við það að tengingar við tekjur maka voru afnumdar. Að óbreyttum lögum má áætla að útgjöld ríkissjóðs hefðu lækkað um 200 millj. kr. vegna þessa. Jafnframt er lagt til að ákvæði til bráðabirgða VII verði framlengt líkt og undanfarin ár þannig að heimilt verði að verja fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða á árinu 2015. Verði frumvarpið að lögum munu útgjöld ríkissjóðs því aukast um 200 millj. kr. frá því sem annars hefði orðið vegna þessara ákvæða.

10. Almannatryggingar. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að fjárhæð frítekjumarks vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar og heimilisuppbótar verði sú sama á árinu 2015 og á þessu ári með framlengingu á bráðabirgðaákvæði. Frítekjumarkið er nú 1.315.200 kr. á ári sem jafngildir 109.600 kr. á mánuði. Verði það ekki framlengt mun frítekjumark örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna lækka úr 1.315.200 kr. á ári í 328.800 kr. með tilheyrandi lækkun bóta. Að óbreyttu hefðu útgjöldin lækkað um 1 milljarð kr. á árinu 2015. Verði frumvarpið að lögum mun afkoma ríkissjóðs því versna um 1 milljarð kr. frá því sem ella hefði orðið.

11. Atvinnuleysistryggingar. Lagt er til að tímabilið sem heimilt er að greiða atvinnuleysisbætur verði stytt frá og með 1. janúar 2015 um sex mánuði, þ.e. úr 36 mánuðum í 30 mánuði. Samhliða er gert ráð fyrir breytingum á tilteknum ákvæðum laganna þar sem kveðið er á um biðtíma eftir atvinnuleysisbótum og viðurlög. Áætlað er að þessi breyting leiði til þess að útgjöld vegna greiðslu atvinnuleysisbóta lækki um 1.130 millj. kr. á árinu 2015 í samræmi við spá Vinnumálastofnunar um þróun skráðs atvinnuleysis á árinu 2015.

12. Greiðsluþátttökukerfi lyfja. Í frumvarpinu er lagt til að útgjöld vegna S-merktra og leyfisskyldra lyfja falli undir hið almenna greiðsluþátttökukerfi lyfja eins og gildir fyrir önnur lyf sem ávísað er til notkunar utan heilbrigðisstofnana. Sjúklingar sem liggja inni á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum munu ekki taka þátt í kostnaði vegna lyfja sem þeir fá meðan á innlögn stendur frekar en verið hefur. Ekki verður heldur nein breyting á opinberum innkaupum og umsýslu umræddra lyfja. Áætlað er að breytingin muni leiða til 145 millj. kr. útgjaldalækkunar fyrir ríkissjóð.

13. Greiðsla kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara. Þá er lögð til lækkun á gjaldhlutfalli samkvæmt ákvæðum laga um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara sem ætlað er að standa undir kostnaði vegna reksturs embættisins. Lagt er til að hlutfallið af álagningarstofni lækki úr 0,0212% í 0,0148% sem þýðir að tekjur af gjaldinu verða liðlega 496 millj. kr. árið 2015 sem er sama fjárhæð og fjárheimildir umboðsmanns skuldara vegna rekstrarársins 2015. Verði frumvarpið að lögum er því ekki gert ráð fyrir að breytingin muni hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs.

14. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða. Vegna þeirrar hagræðingarkröfu sem gerð er til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir því að framlag til sjóðsins verði skert um 13 millj. kr. á næsta ári. Þrátt fyrir skerðinguna eru áform um umtalsverð einskiptisframlög til framkvæmda við ferðamannastaði á árinu 2014 vegna mikils og vaxandi álags ferðamanna. Þá eru í undirbúningi áform um fjármögnun á uppbyggingu innviða ferðamannastaða til frambúðar.

15. Gjaldskyld losun gróðurhúsalofttegunda. Lagt er til að fjárhæð losunargjalds vegna gjaldskyldrar losunar verði breytt til samræmis við breytingar á meðalverði losunarheimilda á Evrópska efnahagssvæðinu eins og það er á árstímabili sem lýkur 31. ágúst árið áður. Gert er ráð fyrir að sú breyting muni hafa óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs. Einnig er lagt til að tekjur af sölu losunarheimilda á uppboði verði ekki markaðar til loftslagssjóðs, eins og gert er ráð fyrir í lögunum, heldur skuli tekjurnar renna í ríkissjóð. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 300 millj. kr. tekjum af sölu losunarheimilda og mun því afkoma ríkissjóðs batna um 150 millj. kr. frá því sem annars hefði orðið miðað við að þeim fjármunum hefði verið varið í ný útgjöld.

16. Úrvinnslugjald á raf- og rafeindatæki. Að lokum er lagt til að nýr viðauki bætist við lög um úrvinnslugjald sem geymir tollskrárnúmer raf- og rafeindatækja sem úrvinnslugjald verður lagt á og fjárhæð þess. Þá er lagt til að við ákvæði laga um meðhöndlun úrgangs verði bætt tilvísun til nýs viðauka í lögum um úrvinnslugjald um raf- og rafeindatæki. Áætlaðar tekjur af úrvinnslugjaldi á raftæki árið 2015 eru 117 millj. kr. og renna þær í Úrvinnslusjóð. Breytingin mun því ekki hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Virðulegi forseti. Fjárhagsleg áhrif er erfitt að meta af mikilli nákvæmni. Það er ekki vandalaust að leggja mat á það hvaða áhrif framangreindar tillögur hafa á einstakar efnahagsstærðir eins og ráðstöfunartekjur heimilanna, verðlag eða kaupmátt ráðstöfunartekna sem aftur hafa áhrif á framvindu efnahagsmála, enda tillögurnar mjög margvíslegar. Samanlagt eru þó áhrif þeirra talin mjög óveruleg. Verðlagsáhrif af upptöku úrvinnslugjalds á raftæki eru talin óveruleg sem og umhverfisáhrif þar sem um er að ræða einföldun á skilakerfi sem þegar er til staðar.

Verði frumvarp þetta að lögum má gera ráð fyrir því að afkoma ríkissjóðs batni að öllu samanlögðu um 2,1 milljarð kr. frá því sem hefði orðið að óbreyttu.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.