144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[18:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að hve miklu leyti þessi heimild verður nýtt á næsta ári, en áætlað er að á árinu 2015 verði greidd húsaleiga að upphæð 579 millj. kr. til hjúkrunarheimila, sveitarfélaga. Allt byggir það á ákvörðun sem var tekin á árinu 2009 að leita eftir samstarfi við sveitarfélögin um að fara ákveðna leið, þ.e. leiguleiðina. Mínar athugasemdir hér voru þær að jafnvel þótt ég hafi sýnt því skilning að við þær aðstæður sem þá voru hafi þetta verið fær leið til að taka á bráðavanda tel ég að hún sé óheppileg til lengri tíma. Heimildin sem verið er að framlengja hér er til að tryggja að leigugreiðslur verði í samræmi við þær skuldbindingar sem gengið hefur verið út frá í samstarfi við sveitarfélögin.

Varðandi lyfin er um það að ræða að við höfum tiltölulega nýlega verið að betrumbæta greiðsluþátttökukerfi vegna lyfja. Það hafa verið ákveðin grundvallarmarkmið í þeirri innleiðingu nefnilega að fækka sem allra mest undanþágum og auka jafnræði. Með þeirri breytingu sem hér er verið að gera eru S-merkt lyf, sem afgreidd eru utan sjúkrastofnana, felld inn í almenna greiðsluþátttökukerfið. Það má segja að með því sé greiðsluþátttakan jafnari og á ákveðinn hátt sanngjarnari, en vissulega vex greiðsluþátttaka sjúklinga.

Það er hins vegar erfitt að réttlæta það að þeir sem þurfa að leysa til sín S-merktu lyfin eigi að vera alveg lausir við greiðsluþátttöku á meðan aðrir sem þurfa að leysa til sín dýr lyf, í sumum tilvikum jafnvel jafn dýr lyf, þurfi að taka þátt í því. Greiðsluþakið mun gilda fyrir S-merktu lyfin eins og öll önnur lyf í greiðsluþátttökukerfinu.