144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[18:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra minntist á það í upphafi máls síns áðan að í þessu frumvarpi væri valin sú leið að ekki væri um að ræða hækkun á svonefndum krónutölugjöldum og fjallaði reyndar bæði um kosti og galla á því. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það frekar mikið umhugsunarefni að við erum að leggja af stað aftur inn á þá braut að hafa einhverja reglustikureglu í þessu og leggja þar öll krónutölugjöld að jöfnu. Að sjálfsögðu geta verið uppi þær aðstæður að menn telji ekki ástæðu til einhverra hluta vegna að uppfæra fjárhæðir einhverra þessara gjalda, en við skulum þó aðeins hafa í huga hvað þarna er undir eins og markaðar tekjur Vegagerðarinnar, áfengis- og tóbaksgjald eða hvað það nú er í hverju tilviki og það er ekki sjálfgefið að þar eigi að leggja allt að jöfnu.

Minnug áranna 2003 til og með 2008, þegar menn vanræktu árum saman að færa þessi gjöld upp til verðlags og mikill slaki myndaðist sem veikti undirstöðurnar í viðkomandi málaflokkum þar sem þetta átti að standa undir útgjöldum eða framkvæmdum, þá standa menn að lokum frammi fyrir því að það verður að taka stór stökk ef á að færa þessi gjöld aftur upp til raungildis. Ég held að það sé ekki heppilegt almennt séð.

Það er alveg rétt, það er vandi ef ríkið er með árlegum uppfærslum á þessum gjöldum að slá einhvern tón í sambandi við verðbólgu eða verðbólguvæntingar. Þess vegna kæmi vel til álita að hafa það innbyggt að þessi gjöld hækkuðu að jafnaði ekki nema sem næmi verðbólgumarkmiði Seðlabankans eða eitthvað því um líkt. Í þeim tilvikum sem spár væru um það eða horfur væru á að verðbólga yrði eitthvað meiri tæki ríkið það bara á sig, þá yrði einhver rýrnun á verðgildi þessara fjárhæða. En hitt að láta gjöldin bara rýrna fyrir fram með því að færa þau ekki upp til verðlags, og ég tala nú ekki um hæla sér af því, er skammsýnt nema menn séu þeirrar skoðunar að það sé ekki ástæða til þess að hafa þessi gjöld á nokkurn veginn því róli eða raungildi sem þau hafa verið.

Um efni þessa frumvarps. Það er „bland í poka“ eins og oft vill verða í bandormum sem fylgja fjárlagafrumvörpum. Þetta er fylgifrumvarp fjárlaga á þskj. 3 ef við teljum frumvarpið um virðisaukaskattinn á þskj. 2 á undan sem er með lægra númer. Þar er best að taka þetta í þeirri röð sem það birtist í frumvarpinu. Þar er fyrst fjallað um framlögin í starfsendurhæfingarsjóð og að ríkið fresti því eða falli frá því enn eitt árið að taka þátt í uppbyggingu starfsendurhæfingarsjóðsins. Nú var ýmislegt um þetta fyrirkomulag rætt á sínum tíma og á mestu þrengingarárunum varð niðurstaðan sú að aðilar vinnumarkaðarins og lífeyrissjóðirnir legðu af stað með kerfið en ríkið kæmi seinna með sín framlög en nú á enn eitt árið að láta þá standa eina straum af þessum útgjöldum.

Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Óttast hann ekki að það fari að súrna í þessu fyrirkomulagi? Ég tala nú ekki um að lífeyrissjóðirnir sem gengu mjög tregir til þátttöku í þessu samstarfi en höfðu þó auðvitað fyrir sér þau rök ef þetta mætti verða til þess að draga úr örorkubyrði sem lenti á þeirra herðum síðar meir þá væri til mikils að vinna. Það er ekki deilt um það að markmiðið með þessari starfsemi er mjög þarft og göfugt, að reyna að grípa tímanlega inn í og aðstoða fólk sem hefur orðið fyrir einhverjum áföllum, endurhæfa það og aðstoða til að verða aftur virkt á vinnumarkaði, samanber nafnið.

Mér vitanlega er þetta gert án nokkurs samráðs við aðila vinnumarkaðarins eða lífeyrissjóðina. Miðað við það sem ég þekkti til andrúmsloftsins í þessum samskiptum þá yrði ég ekki hissa á því þótt það færi að súrna svolítið í þeim ef ríkið ákveður nú enn eitt árið einhliða að leggja ekkert til sjóðsins. Látum það vera ef reynt hefði verið að ná samkomulagi um að horfið yrði eitthvað frá fyrri áformum og ríkið kæmi inn með lágar fjárhæðir í byrjun, staða sjóðsins er í sjálfu sér sterk, en þarna er ekki einu sinni verið að sýna lit.

Í öðru lagi um 1., 2. og 4. gr. frumvarpsins þar sem ríkið ákveður allt í einu núna að hverfa í áföngum út úr því að leggja fram fé af tryggingagjaldi til að jafna örorkubyrði lífeyrissjóða. Það gildir mjög svipað um þetta. Er þetta gert án nokkurs samráðs og samþykkis aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóðanna? Mér býður í grun að svo sé. Röksemdafærslan fyrir þessu er líka dálítið skrýtin. Þegar hún er skoðuð þá stendur eiginlega fyrst og fremst að eitt að það þurfi og eigi að endurskoða þetta fyrirkomulag.

Þetta fyrirkomulag er nátengt þríhliða samstarfi á vinnumarkaði. Þetta er efnd á loforði sem ríkið gaf — sömu stjórnarflokkar og þá voru í ríkisstjórn árið 2005 gáfu innkomu í þetta viðfangsefni til að draga úr því að mismunandi þung örorkubyrði mismunandi lífeyrissjóða skekkti verulega myndina. Auðvitað eru menn þar meðal annars að hugsa um muninn milli almenna lífeyrissjóðakerfisins og opinbera hlutans sem er tryggður af ríki og sveitarfélögum og er í sjálfu sér þar af leiðandi í vari með það þó að örorkubyrðin vaxi eitthvað, það leiðir ekki til skerðingar lífeyrisréttinda. Það gildir ekki um almennu sjóðina, þeirra sem hafa þung útgjöld af þessu tilefni og hugsunin var sú að þar inn kæmi jöfnunarsjóður sem bætti að einhverju leyti upp þann mun. Það eru engin efnisrök að segja að þetta fyrirkomulag þurfi að koma til endurskoðunar. Það er ósköp einfaldlega einhliða búið að ákveða að sú endurskoðun eigi að fela það í sér að ríkið hverfi út úr þessu og lífeyrissjóðirnir glími þá sjálfir við mismunandi þunga örorkubyrði.

Er þetta endilega skynsamlegt, m.a. í ljósi samskipta ríkisins og aðila vinnumarkaðarins um lífeyrismálin í heild? Hæstv. fjármálaráðherra er í þeirri stöðu að menn eru ekki enn komnir að niðurstöðu um það hvernig eigi að ná utan um þau mál og tryggja til frambúðar samræmingu ávinnslu lífeyrisréttindanna, gera upp hallann á opinbera kerfinu og allt þetta sem við þekkjum, eitthvert mesta tundur sem við erum með í höndunum og er risavaxið mál fyrir Ísland.

Hæstv. fjármálaráðherra er einmitt með annað frumvarp á dagskrá þar sem á að skrúfa lokið á pottinn eitt ár í viðbót með framlengingu ákvæða sem eru að vísu gamalkunnug, svipað og menn hafa gert nokkur undanfarin ár í þeirri von að mönnum nýtist tíminn til að ná einhverju heildarsamkomulagi um þetta. Þetta er væntanlega ekki jákvætt innlegg í það, a.m.k. ekki hvað almennu lífeyrissjóðina snertir, að henda þarna út í áföngum framlaginu af tryggingagjaldinu. Ég kem meira inn á tryggingagjaldið aftur.

Í þriðja lagi er stytting atvinnuleysisbótatímabilsins um sex mánuði. Um tryggingagjaldið er fjallað í 1.–4. gr. þessa frumvarps og þar eru engar breytingar á álagningarhlutföllunum. Þetta er útskýrt sem aðhaldsaðgerð, sem sagt velferðarráðuneytið eða vinnumarkaðshluti þess hefur ákveðið að uppfylla aðhaldskröfuna með því að skerða atvinnubótaleysisrétt um sex mánuði og draga þar með úr útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs upp á eitthvað á annan milljarð kr. Ef lögum um tryggingagjald er að öðru leyti ekki breytt rennur sama fjárhæð til Atvinnuleysistryggingasjóðs og þar verður þá væntanlega sjóðsöfnun sem þessu nemur. Bókhaldslega geta menn sagt að þetta sé aðhald vegna þess að þeir fjármunir fara ekki í umferð en það bætir í sjálfu sér ekki afkomu ríkissjóðs, ef ég skil þetta rétt, nema fjármálaráðherra gengi alla leið og lækkaði hlutdeild Atvinnuleysistryggingasjóðs í tryggingagjaldi og færði það yfir í almenna tryggingagjaldið, en það er ekki gert frekar en að lækka tryggingagjaldið samhliða því að ríkið lækkar þátttöku sína í greiðslu á jöfnun örorkubyrði. Þar fær ríkið að vísu meiri peninga því að það er hluti af almenna tryggingagjaldinu.

Þetta minnir á samskipti þessarar ríkisstjórnar við aðila vinnumarkaðarins og sérstaklega atvinnulífið sem greiðir tryggingagjald. Ríkið hefur ásælst miklar tekjur út úr tryggingagjaldinu. Vissulega getum við sagt að það sé þörf fyrir það en þar með eru fokin fyrir lítið fyrirheitin um að tryggingagjaldið gæti tekið að lækka þegar drægi úr útgjaldaþörfinni í Atvinnuleysistryggingasjóð, Ábyrgðasjóð launa o.s.frv. Lækkunin, sem ég hef meira að segja heyrt hæstv. fjármálaráðherra stæra sig af, eru 0,1 prósentustig ár eftir ár og svo kannski 0,2 í endann. Það er nú allt og sumt.

Ég vek til dæmis athygli á lítilli grein hér, sem mér finnst alveg með ólíkindum. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða, ofan í allt klúðrið hjá núverandi ríkisstjórn í þeim efnum, er skertur í viðbót við það sem var í fyrra. Það er hluti af aðhaldskröfu. Bíddu, markaður tekjustofn — gistináttagjaldið er ekki einu sinni látið í friði. Eru menn ekki búnir að klúðra þessu nóg þó að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða fengi að halda tekjustofnum sínum óskertum? Nei, það er farið inn með aðhaldskröfu á hann. Ríkið ætlar að krukka þar í nokkrar milljónir út úr sjóðnum í viðbót við það sem skert var í fyrra. Það finnst mér vera lítill metnaður á meðan allt er afvelta hjá hæstv. iðnaðarráðherra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu hvað varðar ferðamálin og uppbyggingu innviðanna. Þetta er hörmuleg frammistaða á fyrsta eina og hálfa ári ríkisstjórnarinnar í þeim efnum, sem skar niður við trog framlögin úr fjárfestingaráætlun, hrekkur svo upp við það í vor að það er enginn náttúrupassi og setur inn aukafjárveitingu til að setja í mestu vandræðin, en kemur aftur hingað með fjárlagafrumvarp þar sem allt er skorið inn að beini og fullkomin óvissa um hvaða tekjum verði úr að spila í formi einhvers náttúrupassa eða einhverrar gjaldtöku á næsta ári. Það er þó gjaldstofn þarna sem er gistináttagjaldið — nei, hann fær ekki einu sinni að halda sér óskertur. Mönnum þykja það kannski ekki stórar tölur, 13 milljóna skerðing, en það er samt þarna.

Um sjúkratryggingarnar og S-merktu lyfin er það að segja að með því að taka þau inn í kerfið ætlar ríkissjóður að spara 145 millj. kr. Kostnaður sjúklinganna vex sem því nemur. Þá ætla ég að halda því fram við hæstv. fjármálaráðherra að þar sé hann að hækka skatta. Það eru sjúklingarnir sem borga, ekki satt? Það er klárlega þannig. Kostnaðurinn er færður yfir á notendur þessara lyfja og í viðbót á svo að taka hátt í 200 milljónir, ef ég man rétt, með því að hækka þakið í endurgreiðslukerfinu. Til samans færast á fjórða hundrað millj. kr. yfir á sjúklinga, notendur lyfjanna. Það má alveg kalla það skattahækkun eins og hvað annað. Hún er bara í þessu formi af því að útgjöldin hverfa ekki og menn munu nota lyfin.

Ég vil líka gagnrýna loftslagsmeðferðina á tekjum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda, þ.e. þar sem fjallað er um loftslagsmálin og loftlagssjóð sem á að taka við þeim tekjum. Nú er það afnumið og tekjurnar eiga að renna beint í ríkissjóð. Ég spyr um samningsskuldbindingar okkar í þeim efnum. Er það ekki alveg ljóst að í samkomulaginu sem þetta byggir á er meiningin sú að ráðstafa þessum tekjum til umhverfisverkefna til að takast á við vandann sem loftslagsbreytingarnar skapa, hvetja til notkunar vistvænna orkugjafa, til orkusparnaðar eða annarra verkefna sem eru mótvægi við þær skelfilegu breytingar á loftslagi á jörðinni sem hlýnunin veldur? Er það ekki tortryggilegt að sjóðurinn sem átti að halda utan um þessar tekjur og endurráðstafa þeim á grundvelli tiltekinna reglna og er þá lagður niður ef hann fær þær ekki og þær renna í ríkissjóð? Svo segir, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að loftslagssjóður fái fjárveitingu eftir því sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni.“

Það er sem sagt bara aftengt að tekjurnar renni sjálfkrafa gegnum sjóðinn til markaðra verkefna og háð geðþótta við afgreiðslu fjárlaga hverju sinni. Hvað segja menn? Verður það ekki brot á okkar skuldbindingum ef menn seilast í þessar tekjur?

Almennt, herra forseti, af því að ég sé að tíma mínum er að ljúka, þá held ég að þetta frumvarp og þau bæði til samans séu býsna vanhugsaður pakki hjá hæstv. fjármálaráðherra þegar allt kemur til alls, samanber viðtökur úti í samfélaginu. Hann getur sjálfsagt látið sér í léttu rúmi liggja andóf okkar hér í stjórnarandstöðunni sem höfum efasemdir um ýmislegt í þessu, en hann hlýtur að verða hugsi þegar hann fær viðtökur við þessu hjá verkalýðshreyfingunni eins og raun ber vitni þessa dagana. (Forseti hringir.) Það er ekkert grín ef menn torvelda hér frið á vinnumarkaði og gerð kjarasamninga sem margt bendir til að verði alveg óvenjuvandasamt eða erfitt að ná saman (Forseti hringir.) í næstu umferð.