144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[18:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að varðandi áhrif þessa á andrúmsloftið, aðstæðurnar í aðdraganda kjarasamninga, sé tvennt sem skipti máli. Það er annars vegar hið efnislega, þ.e. hvað það er í þessum frumvörpum, þessum skattbreytingum og fjárlagafrumvarpi sem verkalýðshreyfingin er ósátt við. Það virðist vera færra sem atvinnurekendur eru ósáttir við. Þeir eru furðu þögulir. Ég undraðist það til dæmis hversu hógværir þeir voru í ummælum um meðferðina á tryggingagjaldinu á síðasta ári og þeir verða það sjálfsagt aftur áfram því það var heldur betur búið að hvína í þeim og heyrast í þeim um að gjaldið ætti auðvitað að lækka lóðbeint í samræmi við lækkandi atvinnuleysi. Það hefur síðan sannarlega ekki gert það, er enn þá yfir 7% en var um 5,2% áður en hrunið skall á.

Verkalýðshreyfingin hefur listað þetta upp og í fréttum frá Alþýðusambandi Íslands er það talið upp. Það er hækkun á matvælum sem komi illa við lágtekjufólk, stytting atvinnuleysisbótatímabilsins, að ekki sé staðið við framlög við starfsendurhæfingarsjóðinn, það eru heilbrigðismálin og þar undir skerðing á framlögum til jöfnunar örorkubyrði almennra lífeyrissjóða sem veldur fyrst og fremst skerðingu á getu almennu lífeyrissjóðanna til að greiða lífeyri. Það hefur verið þannig, ef ég þekki þetta rétt, að vissir sjóðir hafa setið uppi með mun þyngri örorkubyrði. Maður getur kallað þá erfiðisvinnumannasjóði eða þar sem menn stunda áhættusöm störf — sjómenn, bændur eða aðrir slíkir — þar sem slysatíðni er hærri og örorka er meiri. Það er veruleikinn og hann hefur jafnan verið þarna. Síðan nefnir Alþýðusambandið húsnæðismál og menntamál o.fl.

Ég held hins vegar að þetta sé andrúmsloftið, samskiptin. Þetta er annars vegar efnislegt, þessi atriði og fleiri og hins vegar hvernig menn koma fram hverjir við aðra. Hér er ekki um eðlilega þríhliða samskipti eða samstarf að ræða í norrænum anda, að aðilar vinnumarkaðarins og ríkisvaldið líti á sig sem samherja og vinni í þríhliða anda að framvindu sameiginlegra hagsmunamála, þar á meðal að reyna að hafa frið á vinnumarkaði og laða fram farsælar lausnir í þeim efnum.