144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[19:10]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ræddum svolítið á síðasta kjörtímabili viðhorf okkar í þingflokknum til markaðra tekna ríkissjóðs og svo sem engin melding í því og mörg sjónarmið innan Bjartrar framtíðar hvað það varðar. Ég ætla að tala fyrir mig sjálfan.

Ég vil ekki ganga svo langt að útrýma úr ríkisrekstrinum öllum mörkuðum tekjum eins og hugmyndir hafa verið uppi um. Mér finnst mjög mikilvægt að hafa markaða tekjustofna og ég hugsa að það hafi skinið í gegn í viðhorfum mínum til tryggingagjalds hér áðan.

Við höfum tryggingagjald og það er ákveðin hugsun á bak við það. Það er í raun markaður tekjustofn sem á að renna til ýmissa verkefna sem eru til hagsbóta fyrir atvinnulífið og vinnumarkaðinn. Ef þetta er ekki tryggingagjald og ef það rennur ekki í þau verkefni þá er hreinlegast að kalla þetta bara skatt — og ég er ekki hrifinn af því, ég er hrifinn af því að hafa markaðar tekjur og virða þær.

Þróunin sem við höfum verið að sjá er sú að verið er að seilast í tekjustofna, það er verið að seilast í markaðar tekjur og setja þær í ríkissjóð. Mér finnst að það þurfi að afhjúpa það ferli. Það gengur ekki að gera þetta svona og vera í hinu orðinu að tala um skattalækkun, lækka tekjuskattsprósentu í millistigi en á sama tíma að vera að taka einhverja 20 milljarða úr atvinnulífinu í raun með því að láta ekki 2,35%, sem voru sett á atvinnulífið út af vaxandi atvinnuleysi, ganga til baka. Með því að láta það ekki ganga til baka þá er ríkissjóður í raun á hverju ári að ná í einhverja 20 milljarða plús og trommar síðan fram í hinu orðinu og lækkar skatta hér og þar. Þetta er myndin sem þarf að vera öllum skýr og skiljanleg.