144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[19:30]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef virkilega áhyggjur af því að vinnumarkaðsaðgerðir dragist saman og ég tek undir það með hv. þingmanni að það er grafalvarlegt að Vinnumálastofnun þurfi að loka nokkrum útibúum úti um land vegna hagræðingarkröfu á stofnunina. Forstjóri Vinnumálastofnunar lýsir miklum áhyggjum yfir þessu af því að atvinnuástandið er sveiflukennt og með því að hafa öflugar vinnumarkaðsaðgerðir til staðar er hægt að mæta því strax, grípa fólk ef þannig er og finna út hvernig hægt er að mæta aðstæðum þess, veita því ráðgjöf og annað því um líkt.

Atvinnuleysi úti á landi hefur oft einkennst af því að það flyst í burtu, vandinn færist annað. Það er ekkert endilega gott því það fylgja svo mörg vandamál með því að fjölskyldur hrekist frá heimabyggð sinni vegna atvinnuleysis. Atvinnuleysi er kannski ekki mikið á ákveðnum svæðum þegar litið er á tölurnar en það er falið vegna þess að það flyst í burtu. Fólk treystir sér ekki til að vera lengi atvinnulaust víða úti á landi og leitar á höfuðborgarsvæðið eftir vinnu, sem er ekki alltaf í hendi. Þess vegna tel ég vera grafalvarlegt mál að verið sé að ganga svona hart í niðurskurði hjá Vinnumálastofnun og að stytta líka atvinnuleysisbótatímabilið um sex mánuði. Þetta kemur ekki vel út fyrir landsbyggðina frekar en önnur svæði.