144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

fyrirvari stjórnarliða við fjárlagafrumvarpið.

[10:44]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er kúnstugt að hæstv. forsætisráðherra, sem nú er kominn á annan vetur í ríkisstjórn, er enn meira upptekinn af því að vera í stjórnarandstöðu við gömlu ríkisstjórnina en að leiða sína eigin ríkisstjórn. En ég vonast til þess að með þeim missirum sem líða áfram í ríkisstjórn fari hann að huga meira að því að leiða sína eigin ríkisstjórn en að tala um gömlu ríkisstjórnina.

En gott og vel, hann má alveg tala um hana eins lengi og hann vill. Ég held að þjóðin hafi meiri áhuga á því að vita hvað sú ríkisstjórn sem nú situr við völd ætlar að gera. Í ljósi þess að hæstv. forsætisráðherra segir hér: Fyrirvarinn lýtur að því að þetta komi öllum hópum samfélagsins til góða, lítur hann þá svo á og telur hann þá ástæðu til að hlusta eftir gagnrýni Alþýðusambandsins, hlusta eftir gagnrýni Bændasamtakanna í ljósi þess að það er yfirlýst markmið þessarar ríkisstjórnar að styrkja stöðu innlendrar matvælaframleiðslu? Bændasamtökin mótmæla þessum áformum harðlega og telja þau skerða samkeppnisstöðu innlendra búvara. Fátt bendir til þess í þessu nýja fjárlagafrumvarpi að ríkisstjórnin vilji efla innlenda matvælaframleiðslu.

Þetta er annað dæmi um það hvernig umræðan um þetta fjárlagafrumvarp hæstv. fjármálaráðherra, leyfi ég mér að segja, ekki ríkisstjórnar, er að þróast. (Forseti hringir.) Telur hæstv. forsætisráðherra að sú umræða sem þegar hefur farið fram bendi til þess að þetta frumvarp komi virkilega betur út fyrir alla hópa samfélagsins?