144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

vandi lyflækningasviðs LSH.

[10:48]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég þekki til þessarar úttektar embættis landlæknis á lyflækningasviði og það er rétt að hún dregur upp mjög dökka mynd af lyflækningasviðinu en eins og hefur komið fram í viðbrögðum forstjóra spítalans tekur hún þó ekki mið af þeim breytingum sem gerðar voru í fjárlögum ársins 2014, sérstaklega þeim sem lúta að tækjakaupum spítalans. Það er sá þáttur sem núverandi forstjóri undirstrikaði í svörum sínum við þessari úttekt.

Þar var bætt inn verulegum fjármunum. Mig minnir að fjárhæðin á fjárlögum þess árs hafi farið upp í 1.262 millj. kr. Í því fjárlagafrumvarpi sem við erum nýbúin að ræða hér er gert ráð fyrir því að fjárveiting á næsta ári til tækjakaupa á spítalanum verði 1.445 millj. kr.

Húsakosturinn er vandamál. Við gripum til ákveðinna ráðstafana í fyrra í samráði við þáverandi forstjóra, Björn Zoëga, og gerðum úrbætur í mönnunarvanda og móral, ef svo má segja, á lyflækningasviðinu. Það bar verulegan árangur.

Núverandi forstjóri, Páll Matthíasson, hefur upplýst mig um það að starfsmannavelta á Landspítalanum hafi dregist saman þrátt fyrir að aðbúnaðurinn sé með þeim hætti í húsnæði sem raun ber vitni.

Nei, ég hef sagt og sagði það hér við fjárlagaumræðuna að ég sætti mig ekki við núverandi húsakost þessa þjóðarsjúkrahúss okkar. Við þurfum og eigum samkvæmt vilja og ályktun Alþingis að berjast fyrir umbótum í því efni. Það eitt vantar sem svo víða vantar, fjármuni til að standa straum af stofnkostnaði við endurbyggingu Landspítalans.