144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

vandi lyflækningasviðs LSH.

[10:51]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ítreka að ég deili áhyggjum hv. þingmanns af stöðunni á sjúkrahúsinu. Ég leyfi mér engu að síður að fullyrða að við höfum náð ákveðnum áföngum til bata á lyflækningasviðinu. Ég er algerlega einlægur í því að ég vil ráðast í úrbætur á þjóðarsjúkrahúsinu.

Ég er með sama hætti fullkomlega hreinskilinn í því efni að til þess að það sé gert verður maður að hafa fjárheimildir til þess. Svigrúmið sem við höfum haft er ekki nægilegt og hefur ekki verið nægilegt. Það þýðir ekkert fyrir einstaka þingmenn að yppta augabrúnum. Það er hinn sári veruleiki sem við stöndum frammi fyrir.

Menn hafa nefnt ýmsar leiðir við fjármögnun á þessu nýja húsnæði, fjármögnun lífeyrissjóða eða einkafjárfestingar. Vandinn sem við stöndum frammi fyrir varðandi þær fjárfestingar er sá að það þarf líka að greiða af þeim lánum sem við tökum þannig. Við þurfum fjármuni til að standa straum af greiðslum vaxta og afborgana þeirra lána sem færu til úrbóta.