144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

refsiaðgerðir gagnvart Ísrael.

[11:00]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég deili þeirri skoðun með þingmanninum að ábyrgð Ísraelsmanna á ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs er mikil, þeir bera þar mikla ábyrgð með því að stunda til dæmis ólöglegt landnám, byggja múr sem teygir sig inn á yfirráðasvæði Palestínumanna sem er líka ólöglegt o.s.frv. Við deilum, held ég, mikið til skoðunum í þessu máli. Ég hef lagt áherslu á það í öllum samskiptum mínum við Ísraelsmenn. Ég hef nefnilega kosið, hv. þingmenn, að tala við Ísraelsmenn þegar ég hef átt kost á því og mun reyna að gera það nú í september í New York, líkt og ég tala við Palestínumenn um ástandið á svæðinu.

Varðandi það hvort kominn sé tími til að efna til viðskiptaþvingana eða viðskiptabanns á Ísrael er ég ekki viss um að rétt sé að gera það að svo komnu máli, ég er ekki viss um það. Það getur verið að að því komi. Ég get ekkert sagt hvað þarf að myrða marga saklausa borgara til þess að svo verði, ég get ekki sagt það. Ég held hins vegar að það sé ekki, það er mitt mat, kominn sá tími að þjóðir heims séu tilbúnar í slíkt viðskiptabann. Ég get haft rangt fyrir mér. Það verður þá að koma í ljós. Ég held að staðan sé þessi.

Mun ég beita mér fyrir því að hefja viðræður um slíkt viðskiptabann? Ég á ekki von á því að það verði. Ég held hins vegar að það sé mikilvægt að við styðjum við það ferli sem komið hefur verið á varðandi friðarviðræður fyrir botni Miðjarðarhafs milli Ísraelsmanna og Palestínumanna. Ég ítreka að ég tel Ísraela bera mesta ábyrgð á ástandinu sem þar er, en þeir bera ekki einir ábyrgð. Það er hópur manna á þessu svæði sem kallar sig Hamas-liða sem bera líka mikla ábyrgð. Ég hef aldrei dregið dul á það að ég ber litla virðingu fyrir því ágæta fólki.