144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

refsiaðgerðir gagnvart Ísrael.

[11:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir þessa fyrirspurn sem hann beinir til mín.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að auðvitað getum við ekki útilokað að það komi til viðskiptaþvingana á Ísrael. Við munum að sjálfsögðu ekki útiloka að taka þátt í slíku. Ég tel það reyndar frekar líklegt verði um það breið alþjóðleg sátt eða samstaða að gera slíkt.

Það er akkúrat munurinn að mínu mati á stöðunni í dag. Ég held að ekki sé breið samstaða um að efna til slíkra þvingana varðandi ríki Ísraelsmanna. Hins vegar er mjög breið samstaða um slíkt þegar kemur að málefnum Úkraínu þar sem þjóðir Evrópu, þjóðir Norður-Ameríku og fleiri hafa lýst stuðningi við eða tekið þátt í slíkum þvingunum. Það er rétt að Íslendingar hafa stutt þær aðgerðir sem þar hefur verið gripið til. Ég hins vegar segi ekki að við höfum verið í fararbroddi í því en við höfum stutt þær aðgerðir sem hafa verið samþykktar af hálfu Evrópusambandsins og Bandaríkjamanna og þeirra sem hafa talað fyrir slíkum aðgerðum, enda er um það samstaða.