144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

TiSA-samningurinn.

[11:05]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Hverjum hefði dottið í hug að nokkrum árum eftir hið víðtæka efnahagshrun sem reið yfir heiminn á haustdögum árið 2008 mundu þær sömu þjóðir og verst fóru út úr fjármálakreppunni taka þátt í háleynilegum samningaviðræðum er ganga út á að vinda ofan af þeim lögum og reglum sem sett hafa verið á fjármálaþjónustu í kjölfar bankahrunsins?

Í ofanálag virðist sem setja eigi upp einhvers konar yfirþjóðlegan dómstól til að taka ákvarðanir um deilumál sem gætu sprottið upp á milli fjármálafyrirtækja og sjálfstæðra ríkja í framtíðinni.

Það sem hefur komið fram í skjölum sem lekið var til samtakanna Wikileaks í sumar, um yfirstandandi TiSA-viðræður, um aukið frelsi í fjármálaþjónustu og á alþjóðamörkuðum, er sláandi og hlýtur að kalla á mun meiri umræðu hérlendis en raun ber vitni og ekki síður viðbrögð önnur en þau sem hæstv. ráðherra hefur auðsýnt með því að halda því fram að hann hafi þegar upplýst þingið.

Það er alveg ljóst að þingið er ekki upplýst enda getur það varla verið upplýst þar sem mikil og ólýðræðisleg leynd hvílir á þessum samningaviðræðum og öllum þeim fylgiskjölum sem þar er fjallað um.

Kjarninn er eini fjölmiðillinn sem hefur fjallað ítarlega um málið en í fréttaskýringu hans um TiSA kom meðal annars fram, með leyfi forseta:

„Alþjóðasamtök starfsfólks í almannaþjónustu (PSI) hafa gagnrýnt TiSA-viðræðurnar harðlega. Í skýrslu sem þau gáfu út vegna þeirra í lok apríl síðastliðins segir meðal annars að viðræðurnar séu vísvitandi tilraun til að auka hagnað stærstu og ríkustu fyrirtækja og þjóðríkja heims á kostnað þeirra sem verst hafa það. Verði samkomulagið að veruleika muni það auka ójöfnuð gríðarlega.

Með TiSA-samkomulaginu, og öðrum slíkum yfirþjóðlegum viðskiptasáttmálum, sé verið að festa í sessi rétt fjárfesta og koma í veg fyrir að ríkisstjórnir geti gripið til aðgerða á fjölmörgum sviðum sem tengist viðskiptum. Á meðal þess sem PSI segir að TiSA-samkomulagið muni hafa í för með sér er að ríkisstjórnir muni ekki geta tekið aftur yfir opinbera þjónustu ef einkavæðing hennar hafi mistekist, reglugerðir þjóða sem snúa að öryggi verkamanna verði takmarkaðar, sömuleiðis umhverfisverndarregluverk, neytendavernd og eftirlitsstarfsemi með heilbrigðisþjónustu, orkuverum, úrgangslosun og faggildingu í menntakerfinu. „Þetta samkomulag mun koma fram við farandverkamenn (e. migrant workers) sem vörur og takmarka getu ríkisstjórna til að tryggja réttindi þeirra,“ segir enn fremur í skýrslu PSI […]

TiSA-viðræðurnar hafa staðið yfir frá því vorið 2013 og samkvæmt þeim litlu tíðindum sem borist hafa af framvindu þeirra hafa þær gengið vel. Sjöttu viðræðulotu lauk í byrjun maí síðastliðins.“

Viðræðurnar snúast um alla anga þjónustu og aukin réttindi stórfyrirtækja á alþjóðavettvangi. Skjölin sem lekið var til Wikileaks fjalla eingöngu um þær áherslur sem stefnt er á að ná í gegn í tengslum við fjármálafyrirtæki en þær setja svo sannarlega tóninn um hvernig restin af þessum stórhættulega samningi mun verða samsett.

Í ljósi þessa langar mig að spyrja hæstv. utanríkisráðherra eftirfarandi:

Hve marga fundi um TiSA-samninginn hafa fulltrúar frá Íslandi setið? Hverjir hafa setið þá og tekið ákvarðanir fyrir Íslands hönd? Hvernig er upplýsingum um gang mála miðlað til ráðherra og hvenær stendur til að upplýsa Alþingi með fullnægjandi hætti um gang mála áður en samningurinn verður bindandi?

Er möguleiki fyrir utanríkismálanefnd að koma með bókanir eða breytingartillögur áður en samningurinn verður undirritaður? Fá nefndarmenn tækifæri til að sjá samninginn og þau gögn er liggja til grundvallar honum? Ef svo er, verða þá nefndarmenn bundnir trúnaði eins og aðalsamningamaður fyrir Íslands hönd?

Mun ráðherra fá aðgang að þessum gögnum ef hann situr ekki fundina? Mér skilst að þeir sem taka þátt í samningaviðræðum séu bundnir trúnaði í fimm ár eftir að samningurinn hefur verið undirritaður, hvort heldur við samþykkjum hann eður ei.

Hvernig hyggst hæstv. ráðherra gera þinginu grein fyrir samningnum ef slíkar takmarkanir eru í gildi? Er rétt, sem fram hefur komið, að verið sé að setja á fót alþjóðlegan yfirdómstól sem á að útkljá deilumál sem gætu komið upp á milli þeirra sem aðild eiga að samkomulaginu til að auðvelda alþjóðafyrirtækjum að sniðganga skorður og lög sem einstöku þjóðríki reyna að setja þeim?

Ef þetta er rétt, má ekki segja að með því sé hæstv. ráðherra að leggja grunn að víðtæku framsali valds sem er ólögmætt samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins?