144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

TiSA-samningurinn.

[11:10]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa umræðu og setja fram þessar spurningar.

Þátttaka Íslands í þessum tilteknu samningaviðræðum er rökrétt framhald af þeirri stefnu sem íslensk stjórnvöld hafa rekið síðustu áratugina. Ísland er aðili að þjónustusamningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem gekk í gildi árið 1995 eða GATS-samningnum svonefnda. Ísland hefur verið virkur þátttakandi í alþjóðlegum viðræðum um viðskiptamál í áratugi og er aðili að 28 fríverslunarsamningum við 70 ríki. Frá aldamótum hefur vægi þjónustuviðskipta farið ört vaxandi í fríverslunarviðræðum. Í því samhengi má nefna að EFTA-ríkin vinna nú að því að uppfæra ýmsa af eldri fríverslunarsamningum sínum, meðal annars við Tyrkland og Kanada, með það að markmiði að þeir nái einnig til þjónustuviðskipta.

Á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar lagði Ísland fram endurskoðaðar tillögur sínar um skuldbindingar í þjónustuviðskiptum árið 2005. Þær tillögur hafa síðan verið lagðar til grundvallar þeim skuldbindingum sem Ísland hefur gengist undir í þeim fríverslunarviðræðum sem Ísland hefur tekið þátt í. Þessar tillögur hafa einnig verið lagðar til grundvallar þeim skuldbindingum sem Ísland hefur lýst sig reiðubúið til að gangast undir í TiSA-viðræðunum.

Þjónustuviðskipti eru ört vaxandi þáttur í utanríkisviðskiptum Íslands. Þetta er sá angi alþjóðaviðskipta sem vex hvað hraðast. Síðustu ár hefur þróun útflutnings og þjónustu hér á landi verið mjög hagstæð og eru þjónustuviðskipti í dag í kringum 36% af heildarviðskiptum Íslands við umheiminn. Samkvæmt tölum frá Hagstofu var útflutningur á þjónustu 482,7 milljarðar á árinu 2013 en innflutningur 334,9 milljarðar. Þjónustujöfnuður við útlönd á árinu 2013 varð því jákvæður (BirgJ: Svaraðu mér.) — ég vil biðja hv. þingmann að leyfa mér að fara í gegnum ræðuna áður en hann byrjar að grípa fram í — um 147,8 milljarða en jákvæður um 29,6 milljarða á árinu 2012.

Margt hefur verið missagt í fréttum af TiSA-viðræðunum að undanförnu. Hér er um að ræða hefðbundnar viðskiptaviðræður sem eru í venjubundnu ferli innan íslenskrar stjórnsýslu. Eðlilegt er að fjalla um framgang viðræðnanna í utanríkismálanefnd. Ákvörðun um að Ísland taki þátt í þessum viðræðum var tekin í desember 2012 og staðfest af núverandi ríkisstjórn í júní 2013. Litið var til þess að öll helstu samstarfsríki Íslands taka þátt í þessum viðræðum. Má þar nefna hin EFTA-ríkin, Noreg, Sviss og jafnframt ríki Evrópusambandsins og Bandaríkin Það eru því ekki aðeins helstu samstarfsríki okkar sem taka þátt í þessum viðræðum heldur einnig okkar mikilvægustu markaðssvæði.

Eins og ávallt eru viðræður af þessu tagi samstarfsverkefni utanríkisráðuneytisins og fagráðuneyta. Utanríkisráðuneytið leiðir þessar samningaviðræður af Íslands hálfu rétt eins og allar aðrar alþjóðlegar viðskiptaviðræður en á náið samstarf við önnur ráðuneyti um þau svið sem heyra undir verkefnasvið einstakra fagráðuneyta. Gert er ráð fyrir þátttöku sérfræðinga úr fagráðuneytum í samningalotum.

Ísland hefur sótt 9 fundi, þar af 6 formlegar samningalotur. Allar ákvarðanir um framhald viðræðnanna eru því teknar af utanríkisráðuneytinu og eftir atvikum viðkomandi fagráðuneytum í samræmi við starfsvenjur íslenskrar stjórnsýslu. Rétt eins og gildir um aðrar alþjóðlegar samningaviðræður hefur upplýsingum um framgang þessara viðræðna verið miðlað til ráðherra eftir því sem tilefni er til og viðræðunum vindur fram. Gerð var grein fyrir stöðu viðræðna í skýrslu um utanríkismál í mars sl. og 4. júlí 2013 voru utanríkismálanefnd sendar upplýsingar um viðræðurnar ásamt minnisblaði.

Gert er ráð fyrir að utanríkisráðherra muni undirrita samninginn þegar hann er fullkláraður. Samráð mun verða haft við utanríkismálanefnd um þessar viðræður þar sem nefndinni gefst kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Samningurinn verður gerður opinber strax og hann verður undirritaður og um þau gögn sem Ísland leggur fram í samningaviðræðunum gilda hérlend upplýsingalög en eins og í öllu alþjóðasamstarfi verðum við að virða þá staðreynd að ólíkar reglur gilda um opinberan aðgang að upplýsingum einstakra þátttökuríkja. Af hálfu Íslands munum við starfa samkvæmt íslensku upplýsingalöggjöfinni en á sama tíma virðum við áskilnað um trúnað sem önnur þátttökuríki gera áskilnað um þegar kemur að gögnum sem þessi ríki leggja fram. Í þessum efnum eru TiSA-viðræðurnar á engan hátt frábrugðnar öðru alþjóðasamstarfi sem Ísland tekur þátt í og almenningur getur nálgast upplýsingar um TiSA-samningaviðræðurnar ásamt tilboði Íslands á vefsíðu ráðuneytisins.

Mig langar svo rétt í lokin að ítreka það sem hér hefur komið fram í minni ræðu að það hvílir nákvæmlega engin leynd yfir því hvað Ísland er að gera í þessum viðræðum þar sem við förum nákvæmlega eftir þeim lögum sem um upplýsingagjöf gilda. Það er rétt að það hefur komið fram ýmis gagnrýni á þetta ferli og allar þessar viðræður og ég vil taka það fram hér í upphafi að ég deili ekki að fullu þeim áhyggjum sem koma fram, meðal annars í þeim orðum sem hv. þingmaður nefndi hér í sinni upphafsræðu. Mér sýnist að þetta séu hefðbundnar viðræður, þær lúta að viðskiptasamningum sem við höfum þekkt (Forseti hringir.) og tekið þátt í í mörg ár.