144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

TiSA-samningurinn.

[11:17]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir að taka upp þetta mikilvæga mál. Það varðar grundvallaratriði; lýðræði, gagnsæi og leynd. Það er ekki alls kostar rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra að þessi gögn hafi verið aðgengileg. Tilboð Íslands er sett fram í desember 2013, í lok síðasta árs. Tilboðið kom ekki á vef utanríkisráðuneytisins, að því er ég best veit, fyrr en eftir uppljóstranir Wikileaks. Þá koma þessar upplýsingar fyrst á vefinn.

Varðandi áratugahefðina sem hæstv. utanríkisráðherra vísar til, að þetta séu samningar sem séu ekki frábrugðnir því sem áður hafi verið og hefð sé fyrir: Það er þyrnum stráð hefð. Það er rétt sem hann rifjar upp að samningalota hófst 1995, GATS-samningurinn svonefndi, General Agreement on Trade in Services sem síðan leiddi til mikilla mótmæla — hver man ekki eftir Seattle, Washington, Prag? Þá var farið með næstu fundi GATS á eyðimörk Arabíuskagans í Doha í Katar, þangað sem mótmælendur kæmust ekki og takmarkaður fjöldi frá almannasamtökum fengi leyfi til að fara á þessar samningaviðræður. Eftir áframhaldandi mótmæli var farið í leynilegar samræður. Það var breska stórblaðið The Guardian, sem upplýsti síðan um kröfur Evrópusambandsins sem það var að gera leynilega á hendur öðrum ríkjum, þar á meðal fátækustu ríkjum heims. Þetta leiddi meðal annars til þess að Noregur dró kröfur sínar til baka haustið 2005 gagnvart fátækustu ríkjum heimsins.

BSRB stóð fyrir því á sínum tíma, 2002, eftir að The Guardian kom fram með þessar uppljóstranir (Forseti hringir.) að við fengjum að vita hvað íslensk stjórnvöld hefðust að. Og frá því mun ég greina í síðari ræðu minni.