144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

TiSA-samningurinn.

[11:24]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir að hefja máls á þessu máli varðandi TiSA-viðræðurnar. Ég er búin að vera að skoða þetta aðeins síðustu daga og vil nú draga hérna fram aðalatriðin sem aðrir hafa þó nefnt, þ.e. að við höfum verið aðilar að GATS-samningnum frá 1995. Markmið TiSA-samningsins er að fækka hindrunum á vegi fyrirtækja sem starfa á vettvangi þjónustuviðskipta. Ástæða þess að við erum þátttakendur í þessum samningaviðræðum er að við þurfum að sjálfsögðu að tryggja hagsmuni íslenskra fyrirtækja. Annað sem hefur komið fram er að 50 ríki eru í þessum viðræðum ásamt okkur, þar af okkar helstu viðskiptaríki. Þar af leiðandi sé ég ekki hvað er einkennilegt við að við tökum þátt í þessu.

Varðandi leyndina er hér um að ræða storm í vatnsglasi að mínu mati eins og fram hefur komið. Þetta ferli er algerlega hefðbundið eins og við á um aðra alþjóðlega samninga. Það er á byrjunarstigi. Það kom fram í viðtali við Martin Eyjólfsson, fastafulltrúa Íslands í Genf, í viðtali í Vísi í júní á þessu ári að fundað væri í borginni á tveggja mánaða fresti viku í senn og að samningaferlið væri mjög skammt á veg komið.

Utanríkisráðherra hefur jafnframt sagt að það sé sjálfsagt að upplýsa utanríkismálanefnd um þessar samningaviðræður þegar þess er óskað. Ég geri ráð fyrir því að það verði gert og þess vegna tel ég að þessi umræða hér í dag sé af hinu góða, að við séum öll á svipuðum stað í þessari umræðu og skiljum um hvað málið snýst.

Eins og hæstv. ráðherra kom inn á í máli sínu hafa (Forseti hringir.) verið haldnir fundir með íslenskum hagsmunaaðilum. Þeir hafa ekki lýst yfir áhyggjum sínum eins og alþjóðasamtök starfsfólks í almannaþjónustu (Forseti hringir.) gerðu þannig að ég held þetta sé allt á mjög góðu róli og við getum öll andað rólega.