144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

TiSA-samningurinn.

[11:29]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Í þessari seinni ræðu minni ætla ég að daga í efa alla þá leynd sem tveir hv. þingmenn vísa til og jafnvel að menn hafi verið að lesa annað út úr þessum skjölum sem þarna birtust. Það hlýtur að vera samkvæmt íslenskri lagahefð að samningar verða hér lagðir fyrir til staðfestingar. Í þeim samningum sem við höfum staðfest að undanförnu, þó að hv. þm. Birgitta Jónsdóttir deili ekki skoðunum með mér í öllu, höfum við reynt að gæta að mannréttindum eins og mögulegt er.

Ég ætla að segja það hér og nú að ég tel að þó að við eigum að gæta að íslenskum hagsmunum þá er kannski óþarfi að setja fyrirtæki alltaf í fyrsta sæti, þ.e. í fyrsta lagi komi hagsmunir vinnandi fólks hvort heldur það er faglært eða ófaglært og í öðru lagi fyrirtækið sem fylgir á eftir og það sé vonandi hægt að efla hag hérlendis með því að bæta þjónustu í öðrum löndum.

Þegar ég fór að kynna mér þetta mál fann ég ýmislegt. Hér var dreift skjali fyrr í sumar til utanríkismálanefndar þannig að ég get ekki tekið undir þetta með leyndina, að minnsta kosti ekki hvað Ísland varðar. Eins og ég segi þá hef ég ekki kynnt mér hvernig þessum málum er háttað í öðrum löndum. En ég tel að það sé grundvallaratriði í milliríkjasamningum að þeir gangi út á gagnkvæm mannréttindi. Ég vona að svo verði í þessu sambandi. Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.