144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

TiSA-samningurinn.

[11:34]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka fyrir umræðurnar þó svo ég hafi orðið fyrir svolitlum vonbrigðum með tóninn sem kom einmitt fram hjá Framsóknarflokknum. Ég vil líka halda því til haga að hv. þm. Össur Skarphéðinsson fór með rangt mál því að ef maður skoðar skjalið sem var lekið til Wikileaks þá kemur mjög skýrt fram að þar er farið fram á og fólk samþykkir fimm ára leynd, ekki á samningnum heldur öllum fylgigögnum og umræðum sem eru undanfari og liggja til grundvallar samningnum. Mér finnst mjög mikilvægt að við segjum hlutina eins og þeir eru.

Ég mundi vilja ítreka spurningu mína til hæstv. utanríkisráðherra. Mig langar að fá að vita hvernig upplýsingum um gang mála er miðlað til ráðherra, hvort hann sé bundinn trúnaði, þ.e. þessum fimm ára trúnaði, um bakgrunninn, ekki um samninginn heldur þau gögn og þær umræður sem liggja til grundvallar þessum samningi.

Ég fagna því að fólk sé að ræða um að haldinn verði ítarlegri fundur um þessi málefni í utanríkismálanefnd og vona að ég fái skýrari svör þar.

Mér finnst mjög mikilvægt að við höldum því til haga að þó að hefðin sé í þágu leyndarhyggju þá er löngu tímabært að við förum að hefðarhelga gagnsæið. Ástæðan fyrir því að fólk óttast niðurstöðu þessara samninga er sú hve mikil leynd er. Þær upplýsingar og það sem hefur verið lekið gefur okkur ekki tilefni til bjartsýni. Það er bara þannig.

Hefðarhelgi um gagnsæið! Ég skora á hæstv. ráðherra.