144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

TiSA-samningurinn.

[11:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Hér hefur mikið verið talað um leynd og meira að segja hefur Framsóknarflokkurinn á Íslandi verið nefndur. Ég veit ekki hvort við erum víða um heim, en við erum alla vega hér á Íslandi, það er rétt.

Mér sýnist því miður að eina leyndin yfir þessu máli hafi verið innan síðustu ríkisstjórnar, ef fyrrverandi ráðherrar hafa ekki [Hlátur í þingsal.] verið upplýstir um það hvað hér var í gangi því að þetta fór af stað í tíð hennar. (Gripið fram í.)

Ég vil hins vegar svara þeim spurningum sem hv. þingmaður spurði hér áðan varðandi hvernig ráðherra er upplýstur um málið.

Ég vil taka það fram að það er ekki búið að semja um neitt. Það geta verið mörg ár í að samningaviðræður klárist. Það fer vitanlega eftir því hvernig verður gengið frá samningum hvaða upplýsingum má dreifa, hverju má ekki dreifa o.s.frv. Við vitum það ekki enn þá fyrr en búið er að ganga frá þessum samningi.

Ég legg hins vegar áherslu á það hvað varðar Ísland að við deilum þeim upplýsingum sem við getum deilt og eigum að deila samkvæmt þeim upplýsingalögum sem við búum við. Ég ítreka það að ef við teljum, við sem hér erum, þingmenn, ráðherrar og aðrir, að þar þurfi að upplýsa utanríkismálanefnd t.d. oftar og nákvæmar um hlutina þá gerum við það.

Ég vil líka að það komi skýrt fram að það hefur verið lögð áhersla á að upplýsa um framgang þessara viðræðna og m.a. hafa verið haldnir fundir í samstarfi við innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið með Alþýðusambandi Íslands, BSRB og BHM. Þá hafa verið haldnir upplýsingafundir fyrir Samtök iðnaðarins, Samtök atvinnulífsins, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök verslunar og þjónustu o.fl. Það er verið að halda þessum aðilum öllum upplýstum um framgang viðræðnanna. Því er ósköp eðlilegt og sjálfsagt að sjálfsögðu að þingnefndinni sé haldið upplýstri líka.

Við metum (Gripið fram í.) það þannig að það sé mikilvægt fyrir Ísland að taka þátt í þessum viðræðum því að þjónustuviðskipti eru vaxandi og mjög ört vaxandi þáttur af utanríkisviðskiptum. (JÞÓ: … trúnað …) Eins og ég sagði hér áðan þá er þetta svo stór hluti af útgjöldum Íslands.

Hv. þingmaður kallaði (Forseti hringir.) fram í og spyr hvort trúnaður gildi um ráðherra. Ég reikna með að ráðherra fái allar þær upplýsingar sem hann óskar eftir varðandi þessar viðræður.