144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

stefnumótun í heilsugæslu.

[11:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa umræðu. En í ljósi þeirra orða sem hún viðhefur um heilsugæsluna á Akureyri þá skal rétt vera rétt og ég hefði álitið að virðulegur þingmaður vissi það að 19. desember síðastliðinn sagði bæjarstjórinn á Akureyri þessum samningi upp. Bæjarstjórn Akureyrar vill ekki framlengja þennan samning nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem engar forsendur eru til að verða við. Það er bara mjög einfalt.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að bæjarstjórn Akureyrar, bæjarfulltrúar þar, hafa lýst því yfir að síðastliðin ár, sennilega frá þeim samningi sem bæjarstjórnin síðasta þar gerði árið 2011, er hallinn á þessum rekstri í umsýslu bæjarins 160 millj. kr. Krafa bæjarstjórnarinnar í desember síðastliðnum var sú að ég gæti komið með 60–80 millj. kr. inn í samningsgrunninn og þetta var eftir samþykkt fjárlaga. Það eru engar forsendur til að verða við því. Ég átti fund með bæjarfulltrúum á Akureyri í júní um þetta mál, einnig með starfsfólki Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri og sennilega eru yfir 90% starfsmanna heilsugæslunnar á þeirri skoðun að það sé farsælla að ríkið sýsli með þessa þjónustu frekar en sveitarfélagið. Væntanlega liggur það mat starfsfólksins fyrir eftir reynslu síðustu ára af umsýslu bæjarfélagsins.

Varðandi þá spurningu sem hér er sett fram, á hverju þær breytingar byggja sem við erum að vinna að í heilbrigðishluta ráðuneytisins, þá er ósköp einfalt að segja það. Það byggir meðal annars og sérstaklega á úttekt embættis landlæknis frá árunum 2012–2013 þegar það embætti fór um allt land og hitti 350 heilbrigðisstarfsmenn, stjórnendur og starfsfólk heilbrigðisstofnana um allt land. Það eru allnokkur áhersluatriði sem gefa tilefni til þess að tekið sé til hendinni í kerfinu.

Meginniðurstaðan af þessari yfirferð varð sú að heilbrigðisþjónusta á landsvísu sé góð, vissulega vandamál; ýmist staðbundin, sem þarfnast sérstakra lausna, eða almenn og þvert á stofnanir. Niðurstaða embættis landlæknis af þessari yfirferð var sú að sameining heilbrigðisstofnana hafi þrátt fyrir ýmis vandamál við framkvæmd styrkt þjónustuna á viðkomandi upptökusvæðum, faglegt og rekstrarlegt samstarf hafi aukist. Vissulega hafi verið hægt að ná fram vissum sparnaði en sameiningin hafi gefið tækifæri á betri og samfelldari og fjölbreyttari þjónustu. Að þessu er unnið og þeir meta það svo að þetta leiði til betri heilbrigðisþjónustu við viðkomandi íbúa.

Þeir tiltaka einnig Landspítalann, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, nauðsyn þess að efla hana og styrkja til að leiða breytingar í heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og á landsvísu. Að því er verið að vinna. Reiknilíkanið sem hér var nefnt gera þeir að umtalsefni. Það er til skoðunar núna og leiðin sem verið er að reyna að fara er að skoða hvaða möguleikar eru til að láta fjármuni fylgja sjúklingum á milli stöðva eða lækna. Þar er einnig tiltekið að efla þurfi sérnám í heimilislækningum, meðal annars í þágu landsbyggðarinnar. Við erum að styrkja það núna. Ég nefni til dæmis tillögu sem liggur fyrir í fjárlagafrumvarpi um styrkingu á sérnámsstöðum í heimilislækningum sem gerir ráð fyrir viðbót.

Við erum einnig að tala um það, sem var eitt af ábendingarefnunum, að byggja upp betri geðheilbrigðisþjónustu í landinu. Við erum að vinna á grundvelli þingsályktunartillögu sem samþykkt var síðasta vetur. Þeir eru að ræða það líka að byggja þurfi upp aðstöðu fyrir þungaðar konur vegna breytinga á fæðingarstöðum. Við erum með inni núna lokahönnun á sjúkrahóteli við Landspítalann sem á meðal annars að mæta þessu. Við erum með inni í tillögu í frumvarpi til fjárlaga sjúkrahótel á Akureyri, meðal annars til að mæta þessu. Niðurstaða þeirra af þessari yfirferð var sú að þrátt fyrir jákvæða reynslu á Akureyri og á Höfn þá blasi við, segir landlæknir, að almennt eru sveitarfélög of veikburða til að taka að sér verkefni heilbrigðisþjónustunnar. Stærri einingar geti veitt fjölbreyttari þjónustu sem tryggi jafnara og betra aðgengi íbúanna að hágæðaþjónustu.