144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

stefnumótun í heilsugæslu.

[11:54]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa umræðu. Þar sem hér er verið að ræða stefnumótun í heilsugæslu langar mig að nýta tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi tekið til greina hugmynd vinnuhóps 5 sem vann að skýrslu um sameiningu heilbrigðisstofnana og ýmissar sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu en það er tillaga A undir liðnum Skurðstofustarfsemi þar sem lagt er til að tengjast formlega rekstri skurðstofa í ákveðnum radíus við höfuðborgarsvæðið og nota þær til valaðgerða í ýmsum tegundum skurðlækninga. Með þessu væri hægt að létta álagi af skurðstofum á höfuðborgarsvæðinu með því að færa aðgerðir sem ekki eru bráða- eða neyðaraðgerðir og um leið geta stofnanir sérhæft sig meira á því sviði sem þeim er skipað hverju sinni.

Nú hefur ráðherra gefið það út að það skuli verða af sameiningum heilbrigðisstofnana.

Herra forseti. Ef það á að fara í sameiningar væri grunnurinn að byrja á skilgreiningu grunnþjónustu. Hvað ætlar hæstv. ráðherra að tryggja á hverju svæði?

Í tillögu vinnuhópsins segir um stofnanir á Vestfjörðum sem teljast tvær að þrátt fyrir samgönguerfiðleika að vetri til eigi það ekki að hafa áhrif þar sem fyrst og fremst sé verið að tala um stjórnunarlega sameiningu. Þær raddir sem hafa heyrst í mínu kjördæmi tala einmitt gegn stjórnunarlegri sameiningu og gild rök fyrir því að mikilvægur ákvarðana- og framkvæmdaréttur sé tekinn frá stofnunum með þeim breytingum.

Í svari hæstv. heilbrigðisráðherra við fyrirspurn hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur um heilbrigðisstofnanir á Vestfjörðum segir, með leyfi forseta:

„Við áframhaldandi undirbúning sameiningarinnar verður haft samráð við heimamenn, jafnt starfsmenn sem sveitarstjórnarmenn. Að mati ráðherra er einnig mikilvægt að samráð haldi áfram að sameiningu lokinni.“

En í allt sumar hafa birst fréttir þar sem sveitarstjórnir, fulltrúar, félög og hagsmunasamtök mótmæla þessari sameiningu harðlega og segja að ekki hafi orðið af fyrrnefndum yfirlýstum vilja ráðherra til samráðs við heimamenn.

Virðulegur forseti. Ég vil spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvað liggur þar að baki?