144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

stefnumótun í heilsugæslu.

[11:56]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu.

Mig langar að nefna að það eru tvö höfuðverkefni sem ég tel óhætt að segja að þorri landsmanna líti á sem höfuðverkefni hins opinbera og stjórnsýslu almennt, hvort sem það er á sveitarstjórnarstiginu eða hjá ríkinu, það er menntun annars vegar og heilsugæsla hins vegar. Það er litið á þetta sem grunnhlutverk hins opinbera. Á Íslandi er litið á það sem sjálfstæðan hlut að heilsugæsla og heilbrigðiskerfið sé í lagi. Nú liggur fyrir samkvæmt mínum heimildum að á Akureyri hafi menn viljað halda þeirri þjónustu áfram á sveitarstjórnarstiginu en ekki hafi hins vegar verið nægt fjármagn til þess að hækka laun lækna, menn hafi viljað hærri laun. Hæstv. ráðherra hafi ekki getað veitt þær 70–80 milljónir sem beðið var um vegna þess að þá hafi fjárlög þegar verið afgreidd.

Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra tveggja spurninga. Það er annars vegar hvort hann sjái fyrir sér að hægt sé að snúa til baka og leyfa Akureyri að sjá um þessa þjónustu með fjárveitingu í fjárlögum, þ.e. með breytingu á því fjárlagafrumvarpi sem hér er oft til umræðu núna. Hins vegar langar mig að spyrja að því sem hv. þm. Björt Ólafsdóttir spurði um, um viðhorfsbreytingu hæstv. ráðherra gagnvart því hvort einkavæðing sé málið í heilsugæslunni eða hvort hún eigi heima hjá ríkinu. Mér þætti mjög vænt um að fá að heyra meira frá hæstv. ráðherra um hugmyndir hans almennt í víðu samhengi.