144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

stefnumótun í heilsugæslu.

[11:58]
Horfa

Sigrún Gunnarsdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég fagna umræðu um málefni og stefnu heilsugæslunnar og vil vekja sérstaka athygli á erfiðri stöðu í heimahjúkrun sem er einn af máttarstólpum heilsugæslunnar hér á landi. Ég vil þó fyrst taka fram að það er ánægjulegt að sjá ný verkefni til uppbyggingar innan heilsugæslunnar, t.d. með áformum verkefnisins Betri heilbrigðisþjónustu með markvissri símaráðgjöf, þjónustu við þá sem bíða eftir dvöl á hjúkrunarrými, uppbyggingu á framhaldsnámi í heilsugæsluhjúkrun og heimilislækningum. Hins vegar er núna brýnt að fjölga stöðugildum innan heimahjúkrunar, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Þörf fyrir heimahjúkrun hefur aukist mjög mikið undanfarin ár.

Í nýrri skýrslu um heimahjúkrun á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins kemur fram að fjöldi einstaklinga sem þiggur heimahjúkrun hefur aukist um 24% undanfarin fjögur ár og í sumum bæjarfélögum er þessi fjölgun allt að 140%. Á sama tíma hefur fjöldi stöðugilda í heimahjúkrun verið nær óbreyttur. Við það verður ekki unað.

Heimahjúkrun er hagkvæmt úrræði og kemur í veg fyrir að einstaklingar þurfi t.d. innlögn á sjúkrahús eða varanlega stofnanavistun. Þörf fyrir heimahjúkrun mun vaxa í takt við fjölgun aldraðra sem fjölgar á næstu fjórum árum um 14%. Þess vegna er það skammgóður vermir að fresta aðgerðum til að fjölga stöðugildum í heimahjúkrun. Upplýsingarnar frá höfuðborgarsvæðinu eru sýnishorn af stöðu mála hér á landi.

Ég vil beina orðum mínum til hæstv. heilbrigðisráðherra og árétta að það er brýnt að við horfumst í augu við þessar staðreyndir. Það er alveg ljóst að ef við frestum aðgerðum verður vandinn aðeins erfiðari og kallar á dýrari úrræði.