144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

stefnumótun í heilsugæslu.

[12:11]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka öllum þeim sem hér upp hafa komið kærlega fyrir þeirra innlegg.

Ég vil bregðast við orðum hæstv. ráðherra um að rétt skuli vera rétt eins og hann sagði við mig heldur hvass á svip hér áðan. Já, herra ráðherra, rétt skal vera rétt. 19. desember sagði bæjarstjórinn upp samningnum við ríkið. Það var gert vegna þess að bæjarstjórinn var kominn algjörlega út í horn og gat ekki rekið heilsugæsluna áfram með þeim fjárframlögum sem bærinn fékk frá ríkinu, það var bara þannig. Það liggur fyrir. Og rétt skal vera rétt í því að sveitarfélagið vildi halda áfram að reka heilsugæsluna og taldi sig vera að sinna því verkefni vel og geta sinnt því vel.

Annað sem skal líka vera rétt er að auðvitað vilja 90% starfsmenn aðspurðir frekar vera í vinnu hjá ríkinu ef það þýðir, út af jafnlaunaátaki, að þeir fái hærri laun en þeir fá hjá Akureyrarbæ. Akureyrarbær gat ekki veitt þau laun með þessum fjárframlögum frá ríkinu. Við skulum hafa það líka alveg rétt.

Svo vil ég segja það að ég fagna því að ráðherra sé að hefja vinnu við reiknilíkan. Það er þarft og gott. Vonandi fáum við að fylgjast með þeirri þróun allri.

Eftir stendur samt þessi breytta afstaða ráðherra í stefnumótun um heilsugæslu, hún kemur fram á tíu mánaða tímabili. Ég vil gjarnan fá að heyra og við þurfum að heyra hvað liggur þar til grundvallar. Hvað hefur breyst? Hvernig ætlar hæstv. ráðherra nákvæmlega að gera betur með heilsugæsluna hjá ríkinu en hægt var (Forseti hringir.) að gera hjá sveitarfélaginu?