144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[12:47]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður fór mjög vel yfir þetta mál og ég held að ekkert hafi vantað upp á upprifjun hans á forsögunni nema kannski eitt sem ég heyrði ekki í máli hv. þingmanns sem ég man eftir að var skoðað og menn veltu vöngum yfir, áhyggjur manna í árdaga þess að þetta fyrirkomulag fór af stað, og það voru landamærin milli hinnar opinberu endurhæfingar, endurhæfingar innan heilbrigðiskerfisins, og svo þessarar endurhæfingar, þ.e. hvort þar yrði tvíverknaður eða óhrein landamæri. Eftir því sem ég best veit hefur það svo ekki orðið að neinu vandamáli og þetta hefur allt saman unnið ágætlega hvað með öðru, þ.e. heilbrigðistengda endurhæfingin á öðrum forsendum að sjálfsögðu þegar menn hafa verið viðskiptavinir heilbrigðiskerfisins og fara svo áfram innan þess í endurhæfingu.

Ég deili þeim áhyggjum sem hv. þingmaður var hér með af því að, eins og ég orðaði það í gær, það hlýtur að fara að súrna mjög í þessum samskiptum ef ríkið kemur svona fram. Hér komu fram verðmætar upplýsingar um að viðskiptavinir starfsendurhæfingarsjóðsins, sem ekki eru eða hafa verið á vinnumarkaði en fá þar engu að síður þjónustu, séu orðnir þetta margir og að í raun og veru vanti þá upp á að ríkið hafi greitt fyrir þann hluta, hvað þá meira eins og til stóð. Þetta var hugsað sem þríhliða jafngilt samstarf atvinnurekenda, lífeyrissjóðanna sem komu þó nokkuð tregir inn í þetta og svo ríkisins. Ég hef alveg sérstakar áhyggjur af annars vegar því að það súrni í þessu gagnvart lífeyrissjóðunum sem töldu sig vera að fara inn í kerfið samhliða ríkinu en það fór af stað, eins og við munum, með iðgjöldum frá atvinnurekendum og svo náttúrlega þessu að ef menn líta svo á að það sé ekki staðið við það (Forseti hringir.) að greitt sé fyrir fólk utan vinnumarkaðarins sem þarna fær þjónustu fari þetta í mesta óefni. Spurningin er hvað þyrfti til að lágmarki. Nú er munur á 1,5 milljörðum (Forseti hringir.) og kannski engu. Gæti ríkið með nokkur hundruð milljóna króna framlagi á næsta ári byrjað að bjóða þarna upp á gott veður?