144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

mygluskemmdir í fjölbýlishúsum.

[13:31]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Eftir óundirbúnar fyrirspurnir eða viðræður við hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttur fyrr í vikunni átti ég fund með 52% eigenda í fjölbýlishúsinu sem um ræddi og varð áskynja um nýja vídd á þessu vandamáli, þ.e. myglueitrun á heimilum.

Ekki er hægt að taka fyllilega á þessu vandamáli með þeim lögum og reglum sem gilda í dag. Vandamálið hverfur ekki, það er aukast, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin er búin að taka á þessu máli og almenningur er að verða áskynja um þá hættu sem myglueitrun er.

Ég greindi Eygló Harðardóttur stuttlega frá því í dag að staða fólks sem á íbúðir í fjölbýlishúsi þar sem er mygla en ekki á svæði þess, væri líka slæm. Það á eðlilega erfitt með að réttlæta fyrir fjölskyldu sinni að fara út í dýrar framkvæmdir án þess að sannað sé að þær séu nauðsynlegar. Á meðan bregst fólkið sem verður fyrir myglueitruninni réttilega ókvæða við þegar það sér að heilsa fjölskyldu sinnar er í hættu og henni fer hrakandi.

Staðan er ekki góð fyrir hvorn aðilann sem er. Lög og reglur virðast vera mjög illa til þess fallin til að taka á þessu vandamáli en það eru margir sem standa frammi fyrir því, þannig að mig langaði bara til að upplýsa þingheim um nýjustu stöðu (Forseti hringir.) og ég mun áfram fylgja þessu máli eftir og upplýsa þingheim um stöðu þess. Það þarf klárlega að taka vel á því.

Stutt. Eygló bendir á (Forseti hringir.) að sveitarfélögin standa sig ekki í sínu en þau eiga að hugsa um að fólk geti fengið nýtt heimili ef það er í þessum kringumstæðum.