144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[13:45]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Hér er á dagskrá mál á þskj. nr. 3, mál nr. 3 á þessu þingi og það er þriðja frumvarpið sem varðar fjárlögin. Nú tölum við um ýmsar forsendur fjárlagafrumvarpsins. Þetta er annað fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar og annar stjórnarflokkurinn er með almennan fyrirvara við frumvarpið sem er rætt og hefur verið rætt hér tvo undanfarna daga, um virðisaukaskatt, sem er einmitt einn helsti tekjupóstur ríkissjóðs. Sannarlega er þetta svolítið undarleg staða.

Miðstjórn ASÍ segir fjárlagafrumvarpið og fylgifrumvörpin aðför að almenningi og launafólki og vill ekkert eiga saman við ríkisstjórnina að sælda varðandi þau. Launafólk í landinu er nokkuð lemstrað eftir samninga síðasta vetur þegar verkalýðsforustan gekk að kjarasamningum upp á minna en 3% að áeggjan ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans og auðvitað við fögnuð Samtaka atvinnulífsins, allt í nafni stöðugleika og þess að hafa hemil á verðbólgunni. Síðan hefur auðvitað komið í ljós að þeir sem ekki starfa eftir almennum kjarasamningum hafa fengið eða tekið sér launahækkanir upp á tugi prósenta, jafnvel þannig að hækkunin nemur allt að margföldum mánaðarlaunum hinna lægstlaunuðu. Svo birtast fjárlagafrumvarpið og fylgifrumvörpin og þau eru þannig útlítandi að hagur þeirra sem betur mega sín vænkast, þeirra sem geta tekið sér launahækkanir sjálfir og þurfa ekki að semja um þau, en hagur hinna sem minna mega sín er fyrir borð borinn.

Auðvitað á þetta ekki að koma okkur á óvart, virðulegi forseti, því að í landinu er ríkisstjórn sem er fulltrúi þeirra sem hafa það betra. Í einhverjum barnaskap vonaði kona samt að þetta gæti orðið einhvern veginn öðruvísi.

Undanfarna tvo daga hefur verið talað um hækkun matarskattsins og reynt hefur verið að telja okkur trú um að mótvægisaðgerðir væru svo fullkomnar að fólk fyndi ekki fyrir þessu, að fólk sem varla á fyrir mat fengi svo mikinn afslátt af öðru vegna afnáms vörugjalda og 1,5 prósentustiga lækkunar á efra þrepinu að þetta kæmi allt út á eitt. Fólk getur keypt meira af óhollum mat í stað þess sem er hollari og svo alls kyns rafmagnstæki og varahluti í bíla.

Vissulega ber að fagna því að vörugjöld önnur en sykurskatturinn verði afnumin en heildarútkoman er þó ekki þannig að ég sjái ástæðu til að dansa hér konga eins og sumir virðulegir þingmenn telja ástæðu til. Þá hefur verið nefnt að virðisaukaskattur á lyfjum lækki um 1,5 prósentustig og það muni vissulega muna um það. Já, sannarlega munar um það en í þessu frumvarpi sem við höfum nú hér til umfjöllunar kemur fram að fella eigi hin svokölluðu S-merktu lyf sem eru gefin utan spítala undir greiðsluþátttökukerfið. Það á að færa ríkissjóði 145 milljónir. Mér hefur ekki tekist að afla mér upplýsinga um hverjar tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti á lyfjum eru en þessar 145 milljónir koma að minnsta kosti á móti þeirri lækkun og það eru þeir sem síst skyldu sem greiða fyrir það.

Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir fór vel yfir S-merkt lyf en einmitt þeir sem lífsnauðsynlega þurfa á lyfjum að halda, oft veikasta fólkið og langveikt fólk, geta ekki lifað án þeirra. Má nefna dreyrasjúka sem þurfa að taka þessi lyf alla sína ævi. Í viðbót við þá erfiðleika sem fylgja því að þurfa að vera á slíkum lyfjum skal fólk nú borga meira fyrir það.

Mér er ekki alveg ljóst hvað lyf utan spítala þýðir. Nefndin sem fær málið til umfjöllunar þyrfti að ganga úr skugga um það. Þýðir þetta að þeir sem eru inniliggjandi þurfi ekki að borga þetta eða eru þeir sem koma á göngudeildir, t.d. krabbameinssjúkir — eða gigtveikir sem hafa öðlast alveg nýtt líf vegna lyfja en þurfa að fara á göngudeild og fá lyfin þar sem þau eru gefin í æð — eru þeir utan sjúkrahúss, teljast þeir sem sagt til þessara sem þurfa að greiða fyrir lyfin? Við þessu þarf að fá svar.

Virðulegi forseti. Mér finnst textinn um áhrif tillagna frumvarpsins á ráðstöfunartekjur, verðlag og kaupmátt alveg einstakur, ég verð að segja það, en þar segir orðrétt, virðulegi forseti:

„Erfitt er að meta af nákvæmni hvaða áhrif framangreindar tillögur hafa á einstakar efnahagsstærðir eins og ráðstöfunartekjur heimilanna, verðlag eða kaupmátt ráðstöfunartekna, sem aftur hafa áhrif á framvindu efnahagsmála enda tillögurnar mjög margvíslegar. Samanlagt eru áhrif þeirra talin mjög lítil, en þó fremur til lækkunar á ráðstöfunartekjum heimila en hitt, vegna styttingar á bótatímabili atvinnuleysisbóta.“

Síðan er klykkt út með þessu:

„Verðlagsáhrif af upptöku úrvinnslugjalds á raftæki eru hins vegar talin óveruleg sem og umhverfisáhrif þar sem um er að ræða einföldun á skilakerfi sem þegar er til staðar.“

Ég ætla koma að þessu síðar en ég ætla að endurtaka eitt í þessari málsgrein og það er þetta, virðulegi forseti:

„Samanlagt eru áhrif þeirra talin mjög lítil, en þó fremur til lækkunar á ráðstöfunartekjum heimila en hitt, vegna styttingar á bótatímabili atvinnuleysisbóta.“

Ég held að það sé alveg ljóst að þetta verður að minnsta kosti til lækkunar á ráðstöfunartekjum þeirra sem eru svo illa settir að vera á atvinnuleysisbótum.

Mér finnst líka merkileg greinargerð með þessari breytingu, virðulegi forseti. Þar segir:

„Tillaga til breytinga á ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar er lögð fram í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar um lækkun útgjalda og aðhald í ríkisfjármálum.“

Þar var aldeilis ráðist á garðinn þar sem er hæstur eða hitt þó heldur. Þetta kemur frá þeim sem lækka hér veiðigjöld um marga milljarða. Þá er rétt að stytta tímabil atvinnuleysistrygginga.

Af hverju er þetta gert? Hver er ástæðan? Jú, það er náttúrlega vegna aðhalds í ríkisfjármálum, en enn fremur segir í greinargerðinni:

„Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til er jafnframt verið að færa íslenska atvinnuleysistryggingakerfið nær því sem þekkist á öðrum Norðurlöndum að því er varðar lengd þess tímabils sem heimilt er að greiða atvinnuleysisbætur til þeirra sem teljast tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfis viðkomandi lands.“

Já, það var sannarlega kominn tími til, virðulegi forseti, að samræma þetta og gera okkur sem líkust hinum Norðurlöndunum, ekki síst í þeim efnum þar sem okkar kerfi er kannski aðeins skárra en annars staðar. Ég bið virðulega nefnd að athuga upphæðirnar. Er ekki rétt þá að samræma líka upphæðirnar sem fólki eru greiddar í atvinnuleysisbætur? Eða viljum við bara samræma niður á við og ekki í hina áttina?

Ég nefndi áðan verðlagsáhrifin sem talað er um af upptöku úrvinnslugjalds á raftæki. Í greinargerðinni kemur fram að nú þegar beri framleiðendur og innflytjendur þessara tækja ábyrgð á því að þeim sé skilað til baka og þess vegna er eitthvert kerfi fyrir hendi.

Samt sem áður segir í greinargerðinni:

„Leiða má að því líkur að breytt fyrirkomulag þessara mála, þ.e. álagning úrvinnslugjalds á raf- og rafeindatæki, verði tilefni verðhækkana.“

Þá spyr ég: Af hverju í ósköpunum er verið að breyta þessu kerfi ef það er búið að vera í gangi í mörg ár? Það kemur fram í greinargerðinni að kostnaður við það er inni í verði á þessum tækjum og þá spyr ég: Af hverju er verið að setja þetta inn í þennan sjóð ef það leiðir til hækkunar? Það er mér nokkuð óskiljanlegt.

Mig langar aðeins að nefna tryggingagjaldið. Í orðaskiptum hér í þingsal í gær um hvort stjórnarandstaðan hefði greitt atkvæði með skattalækkunum sem ríkisstjórnin hefur lagt til það sem af er kjörtímabilinu héldum við því meðal annars fram að við hefðum samþykkt lækkun á tryggingagjaldi. Þá held ég að hæstv. fjármálaráðherra hafi orðað það þannig að það væri einhver tittlingaskítslækkun. Þá bara spyr ég: Af hverju er þá ekki ráðist í að reyna að lækka þetta gjald meira? Nú er verið að færa peninga inn í ríkissjóð í stað til annarra verkefna sem peningar af þessu tryggingagjaldi runnu til og það er alveg ljóst að tryggingagjaldið er mjög þung byrði á lítil fyrirtæki sem eru með háan starfsmannakostnað. Þar sem starfsmannakostnaðurinn er hátt hlutfall af kostnaði verður skattbyrðin mjög há af tryggingagjaldinu vegna þess að það leggst á launakostnað. Ég legg til við nefndina að það verði skoðað hvort ekki sé bæði hægt að lækka tryggingagjaldið og hvort það sé einhver möguleiki að létta byrði af litlum fyrirtækjum þar sem launakostnaður vegur mjög þungt. Ég veit að það er ekki auðvelt en ég held að það væri vel þess virði að skoða það.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tala um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða hér. Hann er svo mikið rugl og ég veit ekki alveg hvaða orð ég á að nota yfir það sem hefur verið gert við peninga til að styrkja innviði þessarar atvinnugreinar sem nú skapar orðið mestan gjaldeyri í landinu. Hér á að leggja það niður vegna hagræðingarkröfu en hins vegar skilst manni að það komi háar upphæðir inn á fjáraukalög. Það er alveg nauðsynlegt að það verði mótuð einhver stefna í því hvernig á að takast á við og búa að þessari miklu atvinnugrein okkar hér.

Ég vil að síðustu vísa í það sem hv. þm. Helgi Hjörvar fór í gegnum varðandi vaxtabæturnar þegar við berum saman að vaxtabætur sem hafa verið tekjutengdar lækka um 14 milljarða og að á sama tíma sé hin mikla leiðrétting greidd út til allra, sama á hvaða tekjubili þeir eru, og hvernig það enn og aftur verður til þess að bæta hag þeirra sem betra hafa það á kostnað þeirra sem við eigum að standa vörð um og reyna að hjálpa eftir því sem nokkur möguleiki er til að hafa betri tekjur og betri afkomu en þeir hafa í dag.