144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[14:47]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga. Ég ætla að staðnæmast við þrjá, fjóra liði. Ég ætla fyrst að beina sjónum að atvinnuleysistryggingum, atvinnuleysisbótum og rétti fólks til slíkra bóta.

Á tíunda áratug síðustu aldar voru gerðar breytingar á lögum sem eru um þessar bætur á þann veg að í stað ótakmarkaðs tíma sem einstaklingur gæti verið á bótum var ákveðið að takmarka árafjöldann. Ég held að við höfum staðnæmst fyrst við fimm ár, að einstaklingur ætti rétt á því að vera á atvinnuleysisbótum í fimm ár. Það var ýmislegt óhagræði sem fylgdi gömlu lögunum. Það voru t.d. tímabil sem einstaklingurinn fór af atvinnuleysisbótum, átti að vera hvetjandi til atvinnuleitar. Annað í gamla kerfinu var að ekki var nægileg aðstoð, þótti mönnum, við atvinnulaust fólk að finna atvinnutækifæri. Á þessu átti að verða breyting með nýju lögunum og ég held að það hafi tekist að einhverju leyti.

Síðan hafa menn verið að rokka til og frá með þessa tímalengd. Fimm árin urðu að þremur árum, tímabundið var árunum fjölgað í fjögur, það var í tíð síðustu ríkisstjórnar, og svo aftur færð niður í þrjú ár. Ég hygg að fjögurra ára tímabilið hafi verið lögfest sem stundarúrræði. Nú er komin fram tillaga um að færa þetta þriggja ára tímabil í tvö og hálft.

Hvað þýðir þetta? Hvað þýðir það að stytta tímann úr þremur árum í tvö og hálft? Það þýðir það að einstaklingur sem á rétt á atvinnuleysisbótum færi, ef hann finnur ekki vinnu, til sveitarfélagsins sem veitir honum félagslega aðstoð.

Atvinnuleysisbætur eru ekki háar á Íslandi. Ég hygg að atvinnuleysisbætur nú séu tæpar 179 þús kr., 178.823 ef maður vill vera nákvæmur. Þetta eru ekki miklir peningar, 179 þús. kr. á mánuði fyrir skatt, en félagsstuðningurinn hjá sveitarfélögunum er yfirleitt miklu minni. Það er annað sem ber að hafa í huga þegar einstaklingur fer til sveitarfélagsins um framfærslu, það eru tekjutengingar. Atvinnulaus einstaklingur er einstaklingur, það er horft til stöðu hans óháð því hvað makinn eða fjölskyldan aflar. Þegar sveitarfélögin veita stuðning er iðulega tekið tillit til tekna maka, til tekna fjölskyldunnar, þannig að þarna er fólgin kjararýrnun, annars vegar í þeirri staðreynd að félagslegur stuðningur eða stuðningur Félagsþjónustunnar er yfirleitt lægri en atvinnuleysisbæturnar og sums staðar umtalsvert lægri, og síðan er þessi tekjutenging ekki til staðar í atvinnuleysisbótunum.

Síðan er náttúrlega hitt, sem kemur kannski ekki að sök í þessu efni, það er tekjutengingin sem atvinnulaus maður fær á fyrstu þremur mánuðum. Hann getur farið í 281 þúsund, viðmiðunin liggur þar, en það kemur að sjálfsögðu ekki að sök vegna þess að það er verið að taka aftan af tímabilinu og tekjutengingin gildir aðeins framan af.

Þarna er sem sagt verið að spara á kostnað atvinnulauss fólks. Ég leyfi mér, hæstv. forseti, að mótmæla þessari ráðstöfun og tel að það eigi að endurskoða hana.

Í annan stað gagnrýni ég áform um að draga úr stuðningi við lífeyrissjóðina vegna örorkubóta. Það var mikið réttlætismál hjá lífeyrissjóðum sem hafa þunga örorkubyrði að fá stuðning frá ríkisvaldinu og jafna stöðu þeirra sjóða við aðra lífeyrissjóði. Ég nefni t.d. Lífeyrissjóð sjómanna og ýmsa lífeyrissjóði verkafólks þar sem örorkubyrðin var á milli 40% og 50% — á milli 40% og 50% af öllu fjármagni sem rann út úr þessum lífeyrissjóðum var vegna örorkubóta. Það var fólk sem var í áhættustörfum til sjós o.s.frv. Nú er okkur sagt að það eigi að þrepa þennan stuðning niður um 20% á ári, ef ég man rétt, á fimm árum. Þetta er annar þáttur sem ég leyfi mér að gagnrýna við þetta frumvarp.

Þá vil ég nefna S-lyfin og kostnaðarþátttöku og kostnaðarhlutdeild sjúklinga. Í umræðu um annað mál vék ég að tveimur könnunum sem gerðar hafa verið um kostnaðarþátttöku sjúklinga í fjármögnun heilbrigðiskerfisins, annars vegar könnun sem gerð var á vegum Krabbameinsfélagsins og hins vegar félagsvísindadeildar Háskóla Íslands. Niðurstaða þessara tveggja kannana var á einn veg, nefnilega að kostnaðarhlutdeild sjúklinga við fjármögnun íslenska heilbrigðiskerfisins væri nú í kringum 20%, um fimmtungur kæmi úr vasa sjúklinga. Þá má spyrja: Úr vasa hvaða sjúklinga? Ja, með þessum tillögum er verið að taka peninga úr vasa sjúklinga sem eiga við mjög erfiða sjúkdóma að stríða vegna þess að S-lyfin eiga að fara inn í almenna greiðsluþátttökukerfið gagnstætt því sem verið hefur. Það er því verið að leggja þarna sérstaklega álögur á fólk sem er með mjög erfiða sjúkdóma, krabbamein, MS-sjúkdóm og annað slíkt. Þetta finnst mér alls ekki geta gengið upp. Ég þarf meira að segja að hemja mig til að orða þetta með þessum hógværa hætti vegna þess að mér finnst þetta vera — eigum við að segja pólitískt glapræði eða siðferðilegt glapræði? Ég held að við eigum eftir að hafa um þetta stærri orð ef þessu verður ekki kippt til baka í umfjöllun fjárlaganefndar.

Menn eru að tala um að spara með þessum hætti 145 milljónir, að sækja 145 milljónir í vasa sjúklinga sem þurfa að taka hin svokölluðu erfiðu S-lyf en þurftu ekki að greiða þau áður. Síðan koma 160 milljónir til sögunnar sem sparnaður fyrir heilbrigðiskerfið og íþyngjandi að sama skapi fyrir sjúklinga með hækkun á greiðsluviðmiðunarmörkunum, sem þýðir það að fólk borgar þá meira á ári hverju úr eigin vasa.

Sú ályktun sem rannsakendur drógu af könnununum sem ég var að vísa til, annars vegar á vegum Háskólans og hins vegar Krabbameinsfélagsins, var sú að fólk væri farið að veigra sér við að leita til læknis af kostnaðarástæðum. Það kom fram í annarri könnuninni að á hverju ári frestaði þriðji hver Íslendingur læknisaðgerð og að hluta til væri það vegna tilkostnaðar í kerfinu. Það kom líka fram að fátækasta fólkið veigraði sér mest við að leita læknis eða kostnaðarsamra lækninga — það þarf ekki að koma neinum á óvart — sem þýðir að við erum búin að búa til kerfi sem mismunar fólki herfilega félagslega hvað varðar aðgang að heilbrigðisþjónustunni. Það hélt ég að væri nú nokkuð sem við vildum ekki láta gerast í okkar landi.

Þessi þróun, aukin kostnaðarþátttaka sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni, er ekkert að gerast í dag eða gær eða fyrradag. Þetta er langtímaþróun sem varð á tíunda áratugnum og síðan fyrsta áratug þessarar aldar. Við reyndum að vera meðvituð um þessar hættur í síðustu ríkisstjórn og snerum til baka ýmsum greiðslum sem átti að leggja á sjúklinga, ekki síst inni á heilbrigðisstofnunum. Við snerum slíkum ákvörðunum til baka, ákvörðunum sem höfðu verið teknar af forverum okkar í Stjórnarráðinu. Þetta var þróun sem við vildum ekki sjá á Íslandi. Hún hefur sem sagt verið að gerast jafnt og þétt og verður ekki skrifuð á kostnað þessarar ríkisstjórnar öðrum fremur, en hún gengur núna lengra í þessa átt og hún ætlar að taka sérstaklega fyrir fólk sem mér sýnist standa veikast fyrir með því að taka S-lyfin, þ.e. krabbameinslyfin, og MS-lyfin og taka þar meira upp úr vasa sjúklingsins.

Þetta eru hlutir sem verður að endurskoða. Við munu aldrei fara í gegnum þingið, hygg ég, með fjárlagafrumvarp eða bandorm af því tagi sem við ræðum hér án þess að þessu verði breytt. Þessu verður hreinlega að breyta. Ég hef ekki trú á því að ríkisstjórnin muni knýja á um þetta eftir að hún er búin að heyra í stjórnarliðinu almennt í þinginu. Ég trúi því ekki að menn láti skipa sér þannig fyrir verkum að þeir samþykki þetta bara sem einhverja reglustikulausn. Það gengur ekki.

Þarna eru þættir og það eru fleiri þættir í þessu frumvarpi sem væri ástæða til að ræða, sumt hvert sem ég og við höfum ákveðnar efasemdir um, en þetta eru þeir þættir sem ég kýs við þessa umræðu að gera sérstaklega að umræðuefni. Það er stytting atvinnuleysistímabilsins sem mun þýða tekjurýrnun fyrir atvinnulaust fólk og það er sá hópur í þjóðfélaginu sem býr við einna lökust kjörin og horfi ég þá reyndar til samanburðarhópsins sem stendur ívið lakar, þ.e. þeir sem njóta stuðnings frá félagsþjónustu sveitarfélaganna, það er yfirleitt lakara, það er verið að færa atvinnulausa niður á það tekjustig. Þetta er það atriði sem ég tel brýnt að verði skoðað. Ég tel einnig brýnt að endurskoða stuðning við lífeyrssjóðina vegna þungrar örorkubyrði og síðan S-lyfin, því verður að breyta. Það gengur ekki að ætla að spara 145 millj. kr. á kostnað þessa fólks, fólks sem er sannanlega mikið veikt og er iðulega ekki fært um að afla tekna eða er með þverrandi tekjur og í sumum tilvikum engar. Síðan er það hitt, að hækka greiðslumarkið þannig að fleiri fari inn í greiðslukerfið, greiði meira og lengur. Þar erum við að tala um 160 milljónir. Samtals 305 milljónir sem ríkisstjórnin vill spara á kostnað sjúkra. Það er nokkuð sem gengur ekki og við eigum að taka alvarlega. Við eigum að taka alvarlega þær kannanir sem ég hef vísað hér til á vegum Krabbameinsfélags Íslands og á vegum félagsvísindadeildar Háskóla Íslands.