144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[15:40]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur tekið stakkaskiptum frá því í gær og mjög á hinn betri veg. Í gær kom hann hingað og var á köflum eins og götustrákur og reifst og skammaðist en hann er sannarlega pólitískt snyrtimenni í dag og hefur svarað mjög málefnalega. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það.

Ég vildi ekki taka þátt í þessari umræðu. Mig langar þó mikið til þess að beina til hans fyrirspurn um efni sem er alls óskylt því sem menn hafa aðallega drepið á í dag. Það kemur fram um eitt af mínum áhugamálum, sem er uppbygging á ferðamannastöðum, að í undirbúningi séu áform um uppbyggingu innviða ferðamannastaða til frambúðar. Þetta finnst mér vera heldur losaralega orðað en ég veit það að einhvers staðar er verið að gera frumvarp. Í fyrra átti þetta frumvarp að koma. Það kom aldrei vegna skorts á samráði millum ríkisstjórnarinnar og ferðaþjónustunnar. Síðan hefur komið skýrt í ljós að það er ágreiningur uppi um þetta mál.

Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær eigum við von á að sjá þetta frumvarp? Treystir hæstv. ráðherra sér til þess í örstuttu máli að lýsa megindráttum í því eða prinsippum?

Í öðru lagi tek ég því bara sem hæstv. ráðherra segir þegar hann heldur því fram að úrvinnslugjaldið sem verið er að leggja á ýmis rafmagnstæki muni ekki hafa teljandi áhrif. Ég verð samt að segja að það virkar ekki mjög traustvekjandi þegar hæstv. ráðherra talar eins og hann viti ekkert um það og það hafi ekki verið skoðað. Enn síður þegar horft er til þess, eins og hv. þm. Kristján Möller sagði hérna áðan, að í frumvarpinu kemur fram að áhrif þess á ráðstöfunartekjur séu óvissar. Við erum nákvæmnismenn — er það ekki, hæstv. fjármálaráðherra? Við hefðum gjarnan viljað vita þetta, sérstaklega út af hörkunni í umræðunni um fjárlög (Forseti hringir.) og þetta frumvarp og áhrif þess á ráðstöfunartekjur.