144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[15:45]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef fullan skilning á því að hæstv. fjármálaráðherra geti ekki talað mjög djúpt um þetta tiltekna mál. Það getur enginn maður. Við reyndum að spyrja hæstv. fagráðherra út úr þessu máli hér stundum saman á föstudaginn í síðustu viku og þá var líka fátt um svör. Ég hef því fullan skilning á því að hæstv. ráðherra viti hvorki upp né niður í þessu máli. Það hefur enginn maður fundist sem gerir það.

Sömuleiðis þakka ég hæstv. ráðherra fyrir skýr svör og einlæg. Ég tel að það sé viturlegt hjá honum að lýsa því bara yfir að hann geti ekki svarað spurningunni varðandi áhrif úrvinnslugjaldsins nema að athuguðu máli. Þá má velta því fyrir sér hvort það hefði ekki verið enn viturlegra af hæstv. fjármálaráðherra að leggja ekki frumvarpið fram nema að hann hefði athugað það í bak og fyrir. Þetta er bara ábending til hans.

Að öðru leyti óska ég honum velfarnaðar við að ná samstöðu um þetta ágætisfrumvarp að mörgu leyti við stjórnarandstöðuna.